Formaður Framsýnar gaf út á félagsfundi á dögunum að hann ætlaði sér að sýna fulla samstöðu með félagsmönnum og leggja niður vinnu þá daga sem boðað verkfall næði yfir og gegna þess í stað verfallsvörslu. Hann verður því launalaus þessa daga eins og þeir félagsmenn sem verkfallið nær yfir. Skrifstofa stéttarfélaganna verður opin þar sem starfsmenn taka laun eftir kjarasamningi verslunar- og skrifstofufólks.
Formaður Framsýnar stóð vaktina í gær og fór í eftirlitsferðir í Mývatnssveit og Reykjadal. Ekki var annað að sjá en að fyrirtækin væru að virða verkfallsaðgerðirnar. Eitt mál er þó til skoðunar eftir heimsóknirnar í gær. Hér er Aðalsteinn ásamt Guðrúnu sem starfar hjá Hótel Laxá. Hún hafði heimild til að vinna enda þjónn og í Matvís sem ekki hefur boðað verkfall að svo stöddu.