Jöfnuður býr til betra samfélag!

Það er löngu þekkt að norræna samfélagsgerðin hefur betur náð að sameina jöfnuð og samkeppnishæfni en þekkist meðal annarra þjóða. Með því að tengja saman skýra og ábyrga hagstjórn, umfangsmikið og traust velferðarkerfi og skipulagðan vinnumarkað með öflugum samtökum launafólks og atvinnurekenda með skýrt umboð hafa Norðurlöndin skapað þegnum sínum lífsgæði sem skipar þeim í fremstu röð. Þar sem hugtök eins og hagvöxtur, réttur til vinnu, félagslegt öryggi og velferð og jöfnuður eru ekki bara slagorð sem hampað er á tyllidögum heldur þau viðmið sem notuð eru til að meta hvernig til hefur tekist og jafnframt forsendur þess að árangur náist.

Rannsóknir í hagfræði og samfélagsvísindum sýna að þeim samfélögum vegnar best þar sem jöfnuður er mikill. Þar er meðalævi fólks lengri, heilsufar og félagsleg líðan umtalsvert betri en þar sem ójöfnuður er mikill. Fyrir utan hvað mannlífið allt verður fallegra þar sem flestir búa við mannsæmandi kjör. Það græða því allir á auknum jöfnuði og það bókstaflega því kenningar sýna að aukinn jöfnuður stuðlar að meiri hagvexti.

Þegar litið er til 20. aldar sést að verulega dró úr ójöfnuði í Bandaríkjunum í kjölfar kreppunnar miklu og síðari heimsstyrjaldarinnar og var ójöfnuður í lágmarki í Bandaríkjunum í þrjá áratugi þar á eftir. Á því tímabili fór velmegun vaxandi og lífskjör allra þjóðfélagshópa bötnuðu. Viðsnúningurinn varð í upphafi 9. áratugarins í forsetatíð Ronald Reagan. Síðan þá hefur ójöfnuður farið vaxandi á Vesturlöndum.

En hvert stefnum við Íslendingar? Við höfum hingað til búið í samfélagi þar sem jöfnuður hefur verið mikill. En það eru blikur á lofti. Ríkisstjórnin hefur í sínum aðgerðum létt byrðum af ríkasta fólkinu á meðan matarskattur er hækkaður, kostnaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu er aukinn og bótatími atvinnulausra er styttur. Þegar laun á Íslandi eru borin saman við laun á Norðurlöndunum kemur í ljós að munur á dagvinnulaunum er mun minni meðal tekjuhærri hópanna en þeirra tekjulægri. Þannig eru dagvinnulaun stjórnenda á Íslandi 5% hærri að meðaltali á hinum Norðurlöndunum að teknu tilliti til skatta. Mestur munur á dagvinnulaunum er hins vegar gagnvart verkafólki og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki. Hér á landi eru dagvinnulaun verkafólks allt að 30% lægri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Þetta sýnir þróun í átt að auknum ójöfnuði sem nauðsynlegt er að stöðva.

Það er grundvallaratriði að fólk lifi af dagvinnulaunum í stað þess að ganga sér til húðar í yfirvinnu og/eða aukavinnu til að framfleyta sér og sínum. Langur vinnudagur og mikið álag dregur úr framleiðni og eykur samfélagslegan kostnað. Þess vegna er nauðsynlegt að hækka lág- og meðallaun ríflega í komandi kjarasamningum. Vinnum sameiginlega að því að bæta kjörin því jöfnuður býr til betra samfélag fyrir okkur öll.

Til hamingju með 1. maí 2015

Deila á