Samninganefnd SGS boðuð til fundar í dag

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur verið boðuð til fundar í dag kl. 13:00. Tilgangur fundarins er að fara yfir stöðuna í kjaramálum og niðurstöðu Félagsdóms sem dæmdi boðun verkfalls félagsmanna Rafiðnaðarsambands Íslands í störfum hjá RÚV ólögmæta. Forsendur dómsins eru þær, að þar sem atkvæði félagsmanna þeirra aðildarfélaga RSÍ sem í hlut áttu hafi verið talin sameiginlega sé boðunin ólögmæt.

Í dóminum segir: „Þannig fór hvorki fram atkvæðagreiðsla né talning á atkvæðum félagsmanna hvors stéttarfélags fyrir sig, heldur voru öll atkvæði félagsmanna beggja stéttarfélaga greidd og talin í einu lagi. Eins og atkvæðagreiðslu var háttað liggur ekki fyrir vilji félagsmanna hvors stéttarfélags um sig. Það er mat réttarins að slíkt samrýmist ekki ákvæðum 14. og 15.gr. laga nr. 80/1938.“

Samkvæmt heimasíðu Alþýðusambandsins hefur þessi niðurstaða áhrif á yfirstandandi atkvæðagreiðslu Starfsgreinasambands Íslands.

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur verið boðuð til fundar í dag.

Deila á