Ber nafnið Framsýn enda með mikla forystuhæfileika

Heimasíðu stéttarfélaganna leiðist ekki að birta jákvæðar fréttir í bland við alvarlegar fréttir. Fyrir helgina fjölluðu fjölmiðlar um ályktun Framsýnar um kjaramál sem vakti töluverða athygli. Viðbrögðin voru ekki síst góð hjá verkafólki sem sá ástæðu til að hafa samband við félagið. En það voru ekki bara félagsmenn sem höfðu samband. Þessi skemmtilegu skilaboð frá bónda í Galtarholi í Hvalfjarðarsveit bárust formanni Framsýnar.

Ég sá á DV. vefútgáfunni í kvöld að þið voruð að funda í Framsýn. Svo vildi til að ég var líka á fundi með Framsýn. Við vorum ekki að ræða kjaramálin. Mín Framsýn er reyndar forystugimbur sem ég keypti sl. haust vestur í Eyrarsveit, mógolsuflekkótt að lit. Hún er að sjálfsögðu ættuð að norðan úr Þingeyjarsýslu, sæðingur undan Flórgoða frá Hafrafellstungu. Nafnið er sótt til félagsins með hliðsjón af eðli forystufjárins.

Sent til gamans.

Kær kveðja.
Jón Þór Guðmundsson
Galtarholti
Halfjarðarsveit
Borgarfjarðarsýslu

Framsýn er falleg forystugimbur úr Hvalfirði sem hefur mikla forytuhæfileika og heitir í höfuðið á einu öflugasta stéttarfélagi landsins.

Deila á