Stjórn og trúnaðarmannaráð Verkalýðsfélags Þórshafnar samþykkti á fundi sínum í dag að senda frá sér skýr skilaboð vegna stöðunnar í kjaramálum. Félagið tekur heilshugar undir ályktun Framsýnar, stéttarfélags um mikilvægi samstöðunnar og að verkafólk samþykki verkfallsboðun í atkvæðagreiðslu sem hefst á mánudaginn.
Það var mikill hugur í fundarmönnum í dag en stjórn og trúnaðarmannaráð Verkalýðsfélags Þórshafnar koma saman til fundar í hádeginu í dag til að fara yfir stöðu kjaramála og væntanlega atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls.
Aðalsteinn Árni Baldursson var gestur fundarins í dag og hafði framsögu um kjaramál auk þess að svara fjölmörgum spurningum frá fundarmönnum.
Ályktun Framsýnar um kjaramál
„Framsýn, stéttarfélag skorar á félagsmenn og verkafólk um land allt er fellur undir kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins að greiða atkvæði með boðun verkfalls, en atkvæðagreiðsla hefst mánudaginn 23. mars.
Samstaða verkafólks er lykillinn að betri kjörum og réttlæti. Látum ekki Samtök atvinnulífsins komast upp með málflutning sem felur í sér að ekki sé svigrúm til launahækkana hjá þeim tekjulægstu og allt fari fjandans til verði orðið við sanngjörnum kröfum Starfsgreinasambandsins. Það er á sama tíma og tug-prósenta hækkanir flæða inn í launaumslög tekjuhæstu hópana í landinu án þess að varað sé við því sérstaklega.
Með því að samþykkja verkfallsaðgerðir er íslenskt verkafólk að senda skýr skilaboð um að það geri eðlilegt tilkall til þess að fá sinn skerf af þjóðarkökunni og hafnar með skýrum hætti brauðmolavæðingu Samtaka atvinnulífsins.
Látum samstöðuna tala sínu máli, þannig náum við best árangi í baráttunni fyrir bættum kjörum verkafólks.“