300 þúsund krónur á mánuði sanngjörn krafa

Starfsgreinasamband Íslands afhenti Samtökum atvinnulífsins fyrr í vikunni kröfugerð sína vegna komandi kjaraviðræðna. Samninganefnd sambandsins hefur samningsumboð sextán aðildarfélaga, þeirra á meðal er Framsýn, stéttarfélag.

Í kröfugerð Starfsgreinasambandsins er farið fram á krónutöluhækkanir á laun og að lægsti taxti verði 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára. Sérstaklega verði horft til gjaldeyrisskapandi atvinnugreina við launahækkanir.

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar segir að kröfugerð sambandsins sé raunhæf og sanngjörn.

„Lægstu launin eru í dag 201 þúsund og við erum að tala um að þau hækki upp í 300 þúsund krónur á næstu þremur árum. Þessi krafa okkar er sambærileg við aðrar hækkanir sem samið hefur verið um við aðrar starfsgreinar á undanförnum vikum og mánuðum.“

Í kröfugerðinni er sérstaklega rætt um að horft sé til gjaldeyrisskapandi atvinnugreina við launahækkanir. Aðalsteinn Árni nefnir sérstaklega sjávarútveg, ferðaþjónustu og stóriðju.

„Flest fyrirtækin í sjávarútvegi hafa verið rekin með góðum hagnaði á síðustu árum og svipaða sögu er að segja um ferðaþjónustuna. Þar er spáð miklum uppgangi í framtíðinni og við vörum einfaldlega við því að ferðaþjónustan verði láglaunastétt, eins og víða í Evrópu. Stóriðjan hefur sömuleiðis átt velgengni að fagna, þannig að þessar helstu útflutningsgreinar ættu að vera nokkuð vel aflögufærar. Krafan um 300 þúsund krónur á mánuði er sanngjörn og eðlileg,“ segir Aðalsteinn Árni.

Viðbrögðin eftir bókinni

Samtök atvinnulífsins ( SA) lýstu strax yfir vonbrigðum með kröfur Starfsgreinasambandsins og benda á að launabreytingar í nágrannalöndum séu á bilinu 2% til 4% á ári. Svigrúmið til að hækka launin sé þess vegna takmarkað í augnablikinu. Aðalsteinn Árni segir að afstaða Samtaka atvinnulífsins hafi verið eftir bókinni.

„Stjórnendur SA hafa flestir margar milljónir í laun á mánuði og hafa þess vegna takmarkaðan skilning á nauðsyn þess að hækka lægstu launin. Þeir tala meðal annars um að verðbólgan gæti rokið upp í 27% á ári, verði gengið að okkar kröfum. Svona málflutningur er auðvitað ekki sæmandi og heldur ekki þegar talað er um að krafa okkar þýði 50% launahækkun. Þegar kennarar, læknar, flugmenn og fleiri sömdu um sínar hækkanir, heyrðist ekkert í atvinnuveitendum um að allt færi á hausinn í þjóðfélaginu. Þegar þeir sem eru með lægstu launin fara fram á sanngjarnar krónutölulækkanir, ætlar allt um koll að keyra. Þessi viðbrögð komu okkur ekkert á óvart, þau voru bara eftir bókinni.“

Aðalsteinn Árni segir að kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands hafi verið sett fram eftir mikla vinnu í öllum aðildarfélögum.

„Grundvallaratriðið hlýtur að vera að fólk geti lifað af dagvinnulaununum í stað þess að þurfa að treysta á yfirvinnu, aukavinnu og akkorð, til að framfleyta sér og sínum. Viðurkenndar hjálparstofnanir á höfuðborgarsvæðinu hafa meira að segja nefnt að venjuleg fjölskylda þurfi um 300 þúsund krónur á mánuði til að geta lifað sómasamlegu lífi. Atvinnurekendur virðast sjá aðrar tölur í sínum útreikningum.“

Félögin samstíga

Aðalsteinn Árni segir að mikill einhugur ríki innan Starfsgreinasambandsins.

„Já, við mætum mjög vel undirbúin til komandi kjaraviðræðna og baklandið er sterkt. Á starfssvæði Framsýnar voru haldnir almennir fundir, þar sem félagsfólk tók þátt í mótun kröfugerðarinnar. Þá voru margir vinnustaðir heimsóttir og síðast en ekki síst er heimasíðan okkar öflug og lifandi. Þar getur fólk fylgst með gangi mála og haft samband með rafrænum hætti, sem hefur færst í vöxt á undanförnum árum.

Það er hugur í okkar fólki, sem greinilega ætlar ekki að sætta sig við að sitja eftir í launum, miðað við marga aðra. Samningar verða lausir í lok febrúar og önnur launþegasambönd leggja væntanlega fram sínar kröfur á næstu vikum. Þótt ég sé nokkuð bjartsýnn að eðlisfari, efast ég um að samið verði fljótlega. Tónninn í atvinnurekendum er þannig og við verðum einfaldlega að vera við öllu búin. Verkalýðshreyfingin hefur talað um að svo geti farið að grípa þurfi til aðgerða og þá ríður á að allir verði samstíga.“

Viðtal: Karl Eskil Pálsson
karlesp@simnet.is

Formaður Framsýnar telur kröfur Starfsgreinasambandsins sanngjarnar.

Deila á