Rétt er að vekja athygli félagsmanna stéttarfélaganna á því að 55.000 króna skattleysi er vegna líkamsræktar, sjúkraþjálfunar og annarar endurhæfingar. Töluvert er um að félagsmenn fái styrki úr sjúkra- og styrktarsjóðum félaganna og því gott að vita af þessari reglu. Sjá frekar:
„Í kafla 2.1 í skattmati vegna tekna manna á tekjuárinu 2014 kemur fram að öll hlunnindi og fríðindi sem látin eru starfsmönn í té til einkaþarfa séu lögð að jöfnu við laun til viðkomandi og beri að telja þau til tekna á markaðsverði eða gangverði, þ.e. til tekna skuli telja þá fjárhæð sem nemi þeim kostnaði sem launþeginn hefði þurft að leggja út fyrir í þessu sambandi, nema um hlunnindin gildi sérstakt matsverð (sem þá kemur fram í skattmatinu).
Í kafla 2.9 í skattmatinu, sem ber yfirskriftina Heilsurækt, segir að ekki skuli telja til skattskyldra tekna starfsmanns greiðslu frá launagreiðanda, eða eftir atvikum stéttarfélagi, sem ætlað er að standa straum af kostnaði við íþróttaiðkun og aðra heilsurækt að því marki sem slík greiðsla fer ekki yfir 50.000 kr. á ári. Skilyrði er að starfsmaður leggi fram fullgilda og óvefengjanlega reikninga fyrir greiðslu á viðkomandi kostnaði. Með kostnaði við íþróttaiðkun og heilsurækt sé átt við greiðslu á aðgangi að líkamsræktarstöðvum, sundlaugum og skíðasvæðum, greiðslu á æfingagjöldum í íþróttasali og félagsgjöldum í golfklúbba sem og þátttökugjöld vegna annarrar hreyfingar sem stunduð er með reglubundnum hætti. Einnig fellur hér undir kostnaður við aðra heilsurækt eins og t.d. jóga og annar sambærilegur kostnaður, þ.m.t. kostnaður vegna endurhæfingar.
Það að telja umrædda greiðslu á persónulegum kostnaði ekki til skattakyldra tekna þess sem þiggur er undantekning frá þeirri meginreglu að öll hlunnindi skuli teljast til skattakyldra tekna. Verða þessar undantekningar ekki skýrðar rýmra en orðalag gefur tilefni til hverju sinni. Yfirskrift kafla 2.9 í skattmati er „Heilsurækt“ og að því er varðar tilvísun til annarrar heilsuræktar í lokamálsliðnum er vísað til þess að „annar sambærilegur kostnaður“ við t.d. jóga geti fallið undir ákvæðið, þ.m.t. kostnaður vegna „endurhæfingar“. Hér er því átt við sambærilegan kostnað og vegna íþróttaiðkunar sem stunduð er til endurhæfingar.
Að þessu öllu virtu, og sérstaklega með hliðsjón af því orðalagi sem getið er, hefur ríkisskattstjóri túlkað það þannig að með endurhæfingu sé þá átt við ýmis konar líkamlegar sjúkrameðferðir í kjölfar veikinda eða slysa (endurhæfingar), sem gerir fólki kleift að stunda vinnu áfram eða komast til vinnu aftur. Þar með talinn getur við þessar aðstæður verið kostnaður við nálastungur, sjúkraþjálfun og sjúkranudd svo dæmi séu tekin. Ekki hefur verið talið að sálfræðiþjónusta félli almennt hér undir.“