Mikill einhugur á fundi samninganefndar SGS – kröfugerð samþykkt

Það er óhætt að segja að það hafi verið mikill einhugur á fundi samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands í Reykjavík í gær. Innan sambandsins eru 19 stéttarfélög. Að kröfugerðinni standa 16 aðildarfélög sambandsins þar sem svokölluð Flóabandalagsfélög (félögin á höfuðborgarsvæðinu innan SGS) standa sér. Kröfugerð Starfsgreinasambandsins var samþykkt með háværu lófaklappi svo undirtók í Karphúsinu. Að svo stöddu er ekki hægt að greina frá innihaldi kröfugerðarinnar þar sem til stendur að kynna hana fyrir Samtökum atvinnulífsins næstkomandi mánudag. Þó er ljóst miðað við yfirlýsingar forystumanna innan Starfsgreinasambandsins að kröfur verða gerðar um verulegar hækkanir á lægstu launum sem eru í dag kr. 201.317,-.

Mikil einhugur var á fundi samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands í Reykjavík í gær. Hér má sjá nokkra formenn aðildarfélaga sambandsins samþykkja kröfugerðina, þar á meðal formann Framsýnar og Verkalýðsfélags Akraness.

Fundurinn í gær var ekki mikill átakafundur enda allir sammála um að berjast fyrir kjörum félagsmanna Starfsgreinasambands Íslands. Signý Jóhannesdóttir formaður Verkalýðsfélags Vesturlands gaf sér tíma til að prjóna milli þess sem hún tók til máls. Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga sá ástæðu til að brosa fyrir góðum fundi og góðu dagsverki Signýjar.

Deila á