Reiknar með átökum á vinnumarkaði

Skarpur kom út í gær. Í blaðinu er viðtal sem Karl Eskil Pálsson fjölmiðlamaður tók við Aðalstein Árna Baldursson í vikunni um stöðuna í kjaramálum. Hér má lesa viðtalið:

Framsýn-stéttarfélag undirbýr sig eins og önnur sambærileg félög í landinu fyrir komandi kjaraviðræður, en gildandi samningar renna út í flestum tilvikum í lok febrúar. Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar segir að kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands líti væntanlega dagsins ljós í lok þessa mánaðar. Hann segir að Framsýn leggi ríka áherslu á að vera í nánum tengslum við félagsfólk varðandi mótun og gerð kröfugerðar.

„Sú vinna hófst í raun og veru fyrir alvöru síðasta haust, þá efndum við til funda, auk þess sem fjölmargir vinnustaðir á öllu félagssvæðinu hafa verið heimsóttir. Á þessum fundum var sérstaklega kallað eftir skoðunum fólks og áherslum í komandi kjaraviðræðum. Með því að heimsækja alla þessa vinnustaði náum við að tala milliliðalaust við fólk, hefðbundnir félagsfundir virka þvingandi fyrir marga og þess vegna hefur þessi leið verið farin, sem er mjög árangursrík. Í gær (miðvikudagskvöld) stóð Framsýn fyrir félagsfundi um kjaramál, þar sem kastljósinu var sérstaklega beint að kröfum félagsmanna um væntingar fólks um launalið samningsins. Síðan mun stjórn og trúnaðarmannaráð fara yfir tillögurnar, sem fram komu á fundinum og senda Starfsgreinasambandinu fullmótaða kröfugerð. Þar á eftir munu aðildarfélögin sextán leggja fram sameiginlega kröfugerð, sem kynnt verður Samtökum atvinnulífsins.“

Nýverið setti stjórn Framsýnar fram körfu um að lægstu launin hækki um 60 þúsund krónur á mánuði, en lágmarkslaun eru nú 201 þúsund krónur. Þetta útspil Framsýnar vakti mikla athygli, enda hafði verkalýðshreyfingin ekki áður nefnt ákveðna tölu um lágmarkslaun.

„Já, það var heldur betur tekið eftir þessari ályktun Framsýnar og við fengum gríðarleg viðbrögð í kjölfarið, yfirleitt mjög jákvæð. Einstakar starfsgreinar hafa samið að undanförnu um miklar hækkanir, ég nefni til dæmis lækna, flugmanna og kennara og við þekkjum öll kröfur frá öðrum stéttum, sem telja sig hafa setið eftir í launum. Líklega hækkuðu laun lækna um rúmlega mánaðarlaun verkafólks, svo dæmi sé tekið.“

Krónutöluhækkun ófrávíkjanleg krafa

Aðalsteinn álítur að krafan um krónutöluhækkanir sé skýr í komandi kjaraviðræðum, varla verði hlustað á tal eða tillögur um prósentuhækkanir.

„Krónutöluhækkun kemur þeim lægst launuðu best, það er morgunljóst. Þess vegna er þessi krafa í mínum huga skýr. Prósentuhækkanir koma þeim hæstlaunuðu helst til góða, sá sem er með milljón á mánuði fær miklu meira í vasann, en sá sem er með 300 þúsund krónur. Ég er harður á því að samið verði um krónutöluhækkun, en ekki prósentuhækkun. Ég vona að Starfsgreinasambambandið standi fast í þessari kröfu.“

Hagnaðurinn skili sér til fólksins

Alþýðusamband Íslands hefur í undanförnum viðræðum verið nokkurs konar samnefnari í kjaraviðræðum, en í ár mun hvert landssamband fara fyrir áherslum sinna aðildarfélaga. Þannig fer Starfsgreinasamband Íslands með samningsumboð fyrir sextán aðildarfélög, meðal annars Framsýn. Sambandið er fjölmennasta landssamband verkafólks á Íslandi og jafnframt stærsta sambandið innan Alþýðusambands Íslands, með um 50.000 félagsmenn.

„Innan okkar raða eru fjölmörg sóknartækifæri og ég tel skynsamlegt að Starfsgreinasambandið semji fyrir sín aðildarfélög og hef talað fyrir þeirri leið í mörg herrans ár. Stór hluti sjávarútvegsfyrirtækja er að skila miklum hagnaði, þannig að þar á bæ er klárlega gott svigrúm til að hækka launin verulega. Ferðaþjónustan hefur vaxið gríðarlega og veltan sömuleiðis. Stóru fyrirtækin skila eigendum sínum myndarlegum hagnaði og himinhá laun sumra stjórnenda hafa vakið athygli, svo ekki sé talað um ríflegar arðgreiðslur til hluthafa. Verslun og þjónusta virðist sömuleiðis vera á ágætum gír, sem og stóriðjan. Á þetta komum við til með að benda í komandi kjaraviðræðum, tölurnar tala sínu máli og almennt starfsfólk þessara fyrirtækja á að njóta góðs af velgengninni.“

Fær stundum vísur

Aðalsteinn segir að hinn almenni félagsmaður Framsýnar láti mjög í sér heyra, varðandi kjara- og réttindmál.

„Já, sannarlega. Þessir vinnustaðarfundir hafa gefið góða raun. Hitt er svo annað mál að almennir félagsfundir eru stundum ekki nógu vel sóttir. Það á ekki bara við um verkalýðshreyfinguna, heldur félagsstarf almennt. Þess vegna heimsækjum við einmitt vinnustaðina. Heimasíðan okkar er líka mjög lifandi og er mikið heimsótt. Stóru fjölmiðlarnir vakta greinilega heimasíðuna, enda er oftar en ekki vitnað í ýmislegt sem sett er á síðuna. Síðast en ekki síst er mikið hringt á skrifstofuna, þannig að fólk vill greinilega vera í beinu og milliliðalausu sambandi við okkur. Tölvupóstar sem berast, skipta stundum nokkrum tugum á dag. Og svo skemmir ekki fyrir að stundum fáum við hrós í vísuformi og það kryddar auðvitað tilveruna. Ég vil annars nota þetta tækifæri til að hvetja fólk til að vera áfram óhrætt við að hafa samband og ræða málin eða koma með ábendingar.“

Sofandi seðlabankastjóri

Samtök atvinnulífsins og Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafa talað fyrir „hóflegum“ kjarabótum á almennum vinnumarkaði. Aðalsteinn segist hreinlega ekki skilja þann málflutning.

„Þetta er bara gömul tugga. Seðlabankastjórinn virðist vera eins og björninn, hann heldur sér vakandi þegar verkalýðshreyfingin er að móta sína kröfugerð fyrir láglaunafólkið í landinu. Þess á milli skríður bankastjórinn í hýði sitt og sefur vært, svo sem þegar kennarar, flugmenn, og læknar hafa verið að semja um sín kjör. Staðreyndin er sú að millistjórnendur og stjórnendur hafa hækkað gríðarlega í launum og stjórna í raun og veru launaskriðinu. Það er bara þannig.

Stjórnarformaður Samtaka atvinnulífsins er jafnframt forstjóri Icelandair Group. Þessi ágæti maður talar núna um nauðsyn þess að semja um „hóflegar“ kjarabætur. Hann samdi nýverið við flugmenn um miklar launahækkanir í reykfylltu bakherbergi. Ég skora á forstjórann að birta þá samninga, þannig að almenningur geti áttað sig á raunveruleikanum. Einhverra hluta vegna, er eins og samningurinn við flugmenn megi ekki líta dagsins ljós og hafi verið skrifaður í skýin.“

Harður kjaravetur í farvatninu

Eins og fyrr segir leggur Starfsgreinasambandið fram sínar launakröfur í lok mánaðarins. Bæði vinnuveitendur og verkalýðsleiðtogar virðast vera sammála um að erfiðar kjaraviðræður séu í farvatninu. Formaður Framsýnar en engin undantekning.

„ Jú, það er harður vetur framundan og ég bið almennt launafólk um að búa sig undir átök. Við getum ekki enn eina ferðina setið eftir í launamálum og horft á nánast allar aðrar stéttir hækka miklu meira.“

Hvers konar aðgerðir ertu þá að tala um ?

„ Það er hægt að fara ýmsar leiðir, ég er ekki endilega að tala um allsherjarverkfall. Verkalýðhreyfingin getur vel sýnt klærnar með áberandi og afgerandi hætti, ef henni er misboðið. Auðvitað vona ég að ekki þurfi að grípa til einhverra aðgerða, en eins og landið liggur núna, stefnir augljóslega í harðar kjaraviðræður. Við munum aldrei skrifa upp á þriggja til fjögurra prósenta launahækkun. Aðrir launahópar hafa samið um tveggja stafa hækkanir. Síðan tala vinnuveitendur um að almennir launþegar eigi að fá 3 % til 4 %. Þess vegna tala ég um harðan vetur og að jafnvel þurfi að grípa til róttækra aðgerða,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar- stéttarfélags.

Aðalsteinn Árni Baldurrson formaður Framsýnar gerir ráð fyrir hörðum kjaravetri. Hann vonast eftir breiðri samstöðu innan Starfsgreinasambands Íslands í komandi kjaraviðræðum.

Viðtal og texti: Karl Eskil Pálsson fjölmiðlamaður
karlesp@simnet.is

Deila á