Ferðamálasamtök Þingeyjarsveitar, Húsavíkurstofa, Mývatnsstofa og Landvirkjun stóðu í gær fyrir samráðsfundi vegna uppbyggingar Þeistareykjavirkjunar. Fundurinn sem var öllum opinn var haldinn í Ýdölum en á hann mættu um 40 manns frá Landsvirkjun, ferðaþjónustunni, sveitarfélögunum og fleirum auk fulltrúa stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.
Erindi á fundinum fluttu Bjarni Reykjalín umhverfis- og skipulagsfulltrúi Þingeyjar-og Mývatnssveitar, Jóna Bjarnadóttir verkefnastjóri frá Landsvirkjun og Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir frá rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Húsavík.
Að loknum fyrirlestrum var fundarmönnum skipt upp í hópa þar sem velt var upp hugmyndum að framtíðarskipulagi Þeistareykjasvæðisins með tilliti til ferðaþjónustu, virkjanaframkvæmda og annarrar notkunar svæðisins. Rætt var um tækifærin tengd uppbyggingu svæðisins en ekki síður þær áskoranir sem þar kunna að vera. Umræður í hópunum voru líflegar og margar góðar hugmyndir litu dagsins ljós.
Starfsfólk frá Capacent sá um stjórn fundarins og tók saman niðurstöður úr hópavinnu, þær niðurstöður verða birtar síðar. Fundurinn heppnaðist í alla staði mjög vel mjög vel og gaman að finna hversu mikinn metnað og áhuga var að finna á meðal fundarmanna.
Áhugaverður fundur um ferðaþjónustu á Þeystareykjum fór fram á Ýdölum í gær. Framsýn átti tvo fulltrúa á fundinum en þær Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar og Huld Aðalbjarnardóttir skrifstofu- og fjármálastjóri Skrifstofu stéttarfélaganna tóku þátt í fundinum.