Samanburður milli ára – konfekt og kaffi hækka um tugi prósenta

Verð á jólamat hefur hækkað nokkuð í verði síðan í desember 2013 í flestum verslunum. Þó má finn all nokkur dæmi um verðlækkanir. Verslanirnar Bónus, Víðir og Samkaup-Úrval hafa frekar lækkað verð en hækkað. Hjá Nettó, Iceland og Fjarðarkaup hefur verð frekar hækkað en lækkað.

Verð á konfekti hækkar um allt að 36% milli ára.

135 gr. Nóa konfektkassi hefur hækkað töluvert í verði síðan í desember 2013. Mesta hækkunin er um 30% hjá Fjarðarkaupum, 20% hjá Samkaupum-Úrvali, 16% hjá Iceland, og 12% hjá Nettó og Krónunni, 6% hjá Hagkaupum, 5% hjá Bónus en Nóa konfektið lækkað í verði um 1% hjá Nóatúni og 5% hjá Víði. 520 gr. konfektkassi hefur hækkað um allt að 33% og 1 kg. askjan hefur hækkað um allt að 31%.

En það er ekki bara Nói-Síríus sem hefur hækkað hjá sér verð, því verðið á 460 gr. Lindu konfektkassa hefur einnig hækkað en mesta hækkunin er um 36% hjá Nettó, 27% hjá Fjarðarkaupum, 19% hjá Nóatúni, 15% hjá Bónus, 12% hjá Iceland og 1% hjá Krónunni. Lindu konfektið er á sama verði og fyrra hjá Samkaupum-Úrvali en hefur lækkað í verði um 4% hjá Hagkaupum.

Jólakaffið frá Kaffitár hefur hækkað um 29% hjá Krónunni, 27% hjá Nettó, 26% hjá Fjarðarkaupum, 22% hjá Víði, 15% hjá Hagkaupum, 10% hjá Samkaupum-Úrvali en lækkað í verði um 10% hjá Bónus.

Nánari samanburð milli verslana og tímabila má skoða á heimasíðu ASÍ, asi.is.

Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miða við breytingar á verði verslana milli verðkannana verðlagseftirlits ASÍ frá 16. desember 2013 og 9. desember 2014. Rétt er að árétta að mæld eru þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma í versluninni og geta tilboðsverð haft áhrif á verðbreytingar einstakra vara.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Víði, Fjarðarkaupum, Nóatúni, Samkaupum Úrval, Iceland og Hagkaupum .

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Deila á