Framsýn stéttarfélag leggst gegn samræmdri launastefnu og telur að hún hafi haldið niðri launum í þeim greinum atvinnulífsins sem hafi haft burði til að greiða hærri laun en raun ber vitni s.s. sjávarútvegur, iðnaður og ferðaþjónusta. Þá verður ekki horft fram hjá því að aðildarfélög og sambönd Alþýðusambands Íslands fengu aðeins 2,8% almenna launahækkun út úr síðustu kjarasamningum meðan aðrir hópar launþega hafa á sama tíma fengið umtalsvert meiri launahækkanir s.s. tónlistarkennarar sem nýlega fengu um 15% hækkun í skammtímasamningi. Fyrir liggur að láglaunafólk á rétt á leiðréttingum í næstu kjarasamningum og mun því ekki sætta sig við enn eitt kjaraslysið, það er að laun þeirra hækki ekki í takt við aðra hópa launafólks á vinnumarkaðinum og getu atvinnulífsins. Þá er mikilvægt að horft verði til neysluviðmiða Velferðarráðuneytisins þegar lágmarkskjör verkafólks verða ákveðin í næstu kjarasamningum.
Ályktun um kjaramál
„Framsýn, stéttarfélag skorar á aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands að berjast fyrir því að laun verkafólks sem nýtur þess vafasama heiðurs að skrapa botninn í launatöflum launþega á Íslandi fái leiðréttingu á sínum kjörum í næstu kjarasamningum.
Það er óþolandi og reyndar siðleysi að það skuli viðgangast að verkafólk þurfi að búa við þau kjör að vera með rétt um tvö hundruð þúsund krónur á mánuði fyrir fulla vinnu.
Athygli vekur að í hvert skipti sem verkafólk kallar eftir hækkun á sínum launakjörum skuli seðlabankastjóri stíga fram og vara sérstaklega við hækkun lægstu launa. Þá hafa Samtök atvinnulífsins það á stefnuskrá sinni að halda niðri launum verkafólks á Íslandi sem endurspeglast í auglýsingaherferð þeirra þessa dagana.
Af hverju seðlabankastjóri þegir þunnu hljóði þegar hátekjumenn taka við umtalsverðum hækkunum í gegnum launaskrið og kjarasamninga er óskiljanlegt með öllu. Þá er athyglisvert að forsvarsmenn og stjórnendur Samtaka atvinnulífsins, sem þiggja milljónir í laun á mánuði, skuli ekki hafa skilning á því að verkamaður með 201.317 krónur á mánuði telji sér misboðið.
Það er skoðun Framsýnar að laun verkafólks þurfi að hækka verulega í næstu kjarasamningum og gerir því kröfu um að lægsti launataxti Starfsgreinasambands Íslands hækki að lágmarki úr kr. 201.317 í kr. 261.712 á mánuði frá 1. mars 2015 þegar núverandi kjarasamningar renna út.
Náist þetta markmið ekki sér Framsýn ekki ástæðu til þess að aðildarfélög Starfsgreinasambandsins fagni sérstaklega með Vöfflukaffi í húsnæði Ríkissáttasemjara eins og hefð er fyrir eftir undirskrift kjarasamninga.“Framsýn krefst þess að laun verkafólks verði leiðrétt í næstu kjarasamningum. Að mati félagsins hafa félagsmenn Starfsgreinasambands Íslands setið eftir miðað við aðra hópa launafólks.