Bæjarráð hafnar beiðni Vinnumálastofnunar

Eins og fram hefur komið er megn óánægja í samfélaginu hér norðan heiða með ákvörðun Vinnumálastofnunar að loka starfsstöð stofnunarinnar á Húsavík. Framsýn hefur m.a. ályktað um málið og mun væntanlega gera það aftur í kvöld á stjórnarfundi, nú þegar fyrir liggur að þjónustan á Húsavík hefur verið lögð niður.

Bæjarráð Norðurþings fjallaði um málið í gær en Vinnumálastofnun hefur farið þess á leit við sveitarfélagið að það leggi stofnuninni til húsnæði þurfi stofnunin á því að halda fyrir viðtalstíma með atvinnuleitendum. Viðbrögð bæjarráðs eru til fyrirmyndar en þau eru svohljóðandi:

Bæjarráð hefur móttekið bréf Vinnumálsstofnunar dags. 21. nóvember þar sem staðhæft er að ekki sé lengur þörf á sérstakri skráningarskrifstofu á Húsavík fyrir atvinnuleitendur, en stofnunin lokaði þjónustuskrifstofu sinni á Húsavík nýverið. Ennfremur er í bréfinu leitað til sveitarfélagsins eftir „þokkalegri aðstöðu“ til viðtala sem fram fari „endrum og sinnum“. Jafnframt er farið fram á að sveitarfélagið Norðurþing leggi húsnæði til þessasrar starfsemi stofnunarinnar án endurgjalds.

Bæjarráð hafnar þessari beiðni. Lögð er rík áhersla á að Vinnumálastofnun sinni lögbundnum skyldum sínum sómasamlega fyrir íbúa sveitarfélagasins og með fyllilega sambærilegum hætti og í öðrum áþekkum þéttbýlisstöðum í byggðum landsins. Vísað er til bókunar bæjarráðs frá 4. sept. sl.: „Sveitarfélagið Norðurþing harmar mjög ákvörðun Vinnumálastofnunar (VMST) er varðar niðurskurð á starfsemi stofnunarinnar á Húsavík. Jafnframt er harmað að VMST hafi ekki haft samráð eða samskipti um málið áður en þessi ákvörðun var tekin. Ekki er með nokkru móti hægt að sjá að þessi aðgerð samræmist stefnu stjórnvalda í því að fjölga opinberum störfum í landsbyggðunum. Bæjarráð Norðurþings hvetur VMST til að draga þessa ákvörðun til baka og aukinheldur efla starfsstöð sína í Þingeyjarsýslum með því að hafa starfsmann í 100% stöðu á Húsavík til að sinna héraðinu öllu.“

Það er ánægjulegt að sjá að bæjarráð Norðurþings lætur ekki bjóða sér hvað sem er.

Deila á