Vísismálið til umræðu í Félagsdómi

Síðasta miðvikudag fór fram  málflutningur í Félagsdómi í máli Starfsgreinasambands Íslands fh. Framsýnar gegn Vísi hf. vegna starfsmanna fyrirtækisins á Húsavík. Forsagan er sú að Vísir lokaði starfsstöð fyrirtækisins á Húsavík með mánaðar fyrirvara í vor. Uppsögnin kom til framkvæmda 1. maí. Málið er afar athyglisvert en Vísir hefur lagt mikið í vinnsluna á Húsavík á umliðnum árum. Fyrirtækið tók í gagnið nýja vinnslulínu í byrjun árs  2012 fyrir tugi milljóna. Þá fengu þeir leyfi byggingayfirvalda á Húsavík til að stækka húsnæði fyrirtækisins á Húsavík  haustið 2013 auk þess sem fyrirtækið færði skötuvinnslu til Húsavíkur sömuleiðis haustið 2013. Vísir hf. varð fyrir áfalli þegar fyrirtækið tapaði  máli gegn Landsbankanum 6. mars 2014 er varðaði lánasamninga Vísis. Ákvörðun um verulegar skipulagsbreytingar á rekstri fyrirtækisins voru teknar í kjölfarið með það að markmiði að færa m.a. starfsemina frá Húsavík til Grindavíkur. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu 28. mars eru boðaðar verulegar breytingar á rekstri fyrirtækisins en ekki minnst á að loka þurfi starfsstöðinni á Húsavík vegna hráefnisskorts. Tilkynning þess efnis kom fyrst fram  eftir fund Vísismanna með formanni Framsýnar sem mótmælti ákvörðun fyrirtækisins um að loka starfsstöðinni á Húsavík og framkomu í garð starfsmanna. Framsýn krafðist þess að fyrirtækið greiddi starfsmönnum laun á uppsagnarfresti, það er þeim starfsmönnum sem þáðu ekki vinnu hjá Vísi í Grindavík. Í fyrstu neitaði fyrirtækið að verða við kröfu Framsýnar. En eftir nánari skoðun féllust þeir á það, það er eftir að Vinnumálastofnun hafði tekið undir með Framsýn. Varðandi hinn hópinn sem réð sig til starfa á nýjum stað í Grindavík, taldi Framsýn að þeir starfsmenn ættu að halda launum á tímabilinu sem leið milli þess að tækin og vinnslulínurnar voru teknar niður á Húsavík vorið 2014 og þar til aðstaðan var klár í Grindavík í september 2014. Þessu neitaði fyrirtækið og því hafa starfsmenn verið á atvinnuleysisbótum í sumar fyrir utan hefðbundin frí. Dómsmálið snýst um þetta. Var Vísi heimilt að senda fólk á atvinnuleysisbætur í sumar í stað þess að greiða þeim laun samkvæmt ákvæðum kjarasamninga?  Félagsdómur mun kveða upp úr um það á næstu vikum.
Félagsdómur fjallaði í vikunni um málefni Vísis hf. á Húsavík. Fyrirtakan fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Deila á