Síðasta laugardag stóð Framsýn fyrir opnum félagsfundi um fyrirhugaðar framkvæmdir á Bakka við Húsavík. Áhugi er fyrir því innan félagsins að halda opna félagsfundi í hverjum mánuði í vetur. Miðað við viðbrögðin á laugardaginn er full þörf á slíkum fundum þar sem tæplega 70 manns mætu á fundinn sem fór vel fram og var mjög upplýsandi.
Snæbjörn Sigurðarson verkefnastjóri hjá Norðurþingi fór yfir verkefnið og sagði mikilvægt að snúa vörn í sókn í atvinnumálum. Störfum hefði fækkað um þriðjung á svæðinu eða um 32% á árabilinu 1990 til 2009. Hann sagði allt í fullum gangi varðandi verkefnið á Bakka, búið væri að skipuleggja iðnaðarlóðir á Bakka, frekari hafnarframkvæmdir og vegalagningu og göng frá hafnarsvæði að iðnaðarsvæðinu í Bakka og flestir samningar væru í höfn. Þá væru töluverðar framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar í gangi á Þeistareykjum sem miðuðu að því að gera allt klárt fyrir virkjunarframkvæmdir um leið og samþykkt PCC um uppbyggingu á orkufrekum iðnaði á Bakka lægi fyrir sem yrði vonandi um miðjan desember. Samhliða vær Landsnet að skoða línulögn frá Þeistareykjum til Húsavíkur. Verði af framkvæmdum þarf fyrri áfanginn á Bakka um 45 Mw af raforku en verksmiðjan verður byggð upp í tveimur áföngum. Talið er að um 700 manns komi að uppbyggingunni sem ætlað er að ljúki haustið 2017 enda hefjist hún á næsta ári. Eftir að framkvæmdum líkur er áætlað að um 130 til 150 manns vinni við verksmiðjuna og með hliðarstörfum verði starfafjöldin um 200 ný störf. Fleiri fyrirtæki hafa sýnt því áhuga að hefja starfsemi á Bakka og bíða á hliðarlínunni meðan PPC er að klára sín mál. Í máli Snæbjörns kom einnig fram að búið að tryggja fjármögnunina að mestu en Þýski sparisjóðabankinn með tryggingum frá Þýska ríkinu sér um að fjármagna verkefnið að mestu eða um 70%. Þá eru bundnar vonir við að íslenskir lífeyrissjóðir fjármagni innlenda hlutann sem upp á vantar. Reiknað er með því að afstaða þeirra til aðkomu að verkefninu liggi fyrir 15. desember n.k. Gangi fjármögnunin eftir taldi Snæbjörn fátt því til fyrirstöðu að framkvæmdir gætu hafist á næsta ári. Hann sagðist vera bjartsýnn.
Fundarmenn spurðu töluvert út í verkefnið og fengu svör við flestum spurningum.
Samkvæmt þessari glæru verður ákvörðun um verkefnið tekin 15. desember n.k.
Staðsetning verksmiðjunar verður í landi Bakka við Húsavík.
Gera þarf umtalsverðar breytingar á hafnaraðstöðunni.
Fjölmargir munu koma að ferlinu á uppbyggingartímabilinu.
Fundarmenn komu á framfæri þakklæti til Framsýnar eftir fundinn og töldu fundi sem þessa af hinu góða. Fram komu óskir um að næsti fundur yrði um sorpmál í héraðinu en menn telja mikilvægt að taka upp umræðu um stöðu mála ekki síst þar sem sveitarfélögin á svæðinu virðast vera að klofna í málinu. Framsýn stefnir að fundi um sorpmál laugardaginn 6. desember kl. 11:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Fundurinn verður nánar auglýstur síðar.
Skorað er á fólk að koma hugmyndum um fundarefni á framfæri við Skrifstofu stéttarfélaganna. Þegar eru komin nokkur sem unnið verður með í vetur en endilega hafið samband ef þið hafið brennandi málefni sem væri áhugavert að taka upp til umræðu.