Framsýn hefur náð samkomulagi við Flugfélagið Erni um að lækka verð á flugmiðum á flugleiðinni Reykjavík-Húsavík-Reykjavík frá deginum í dag. Samningar tókust um helgina og fela þeir það í sér að Framsýn kaupir ákveðið magn af miðum og endurselur félagsmönnum. Verðið verður kr. 7.500 og mun gilda næstu mánuðina. Algengustu fargjöldin á þessari flugleið eru kr. 16.500 og kr. 20.100. Þetta eru að sjálfsögðu gleðileg tíðindi og mikil og góð kjarabót fyrir félagsmenn stéttarfélaganna en aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna fá aðgengi að samkomulaginu. Á síðustu tólf mánuðum hafa félagsmenn stéttarfélaganna sparað sér um 20 milljónir í bein útgjöld vegna samkomulags Framsýnar og flugfélagsins um flugfargjöld. Salan jafngildir því að allir félagsmenn Framsýnar hafi flogið eina ferð með flugfélaginu en 2400 flugmiðar hafa verið seldir síðustu 12 mánuði sem er glæsilegt og leiðir til þess að hægt er að halda uppi flugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur en flugfarþegum fjölgar stöðugt um Húsavíkurflugvöll. Ekki er ólíklegt að fjölgunin milli ára verði um 15%. Þetta er því sannkallaður jólaglaðningur til félagsmanna. Til hamingju félagar.
Samningar tókust um helgina. Í boði eru flugmiðar á góðum kjörum fyrir félagsmenn í vetur.