Framsýn hefur skorað á þingmenn kjördæmisins að gefa upp afstöðu þeirra til þess að Vinnumálastofnun loki þjónustuskrifstofu stofnunarinnar á Húsavík eftir mánuð, það er 1. desember. Steingrímur J. Sigfússon skrifar til félagsins:
“Ég tel mikil mistök að þrengja svo mjög að fjárhag Vinnumálastofnunar að þjónustan stórskerðist eða leggist jafnvel alveg af á ákveðnum svæðum eins og mun gerast gangi þetta eftir með niðurlagningu starfsins á Húsavík. Þrátt fyrir að mikill árangur hafi náðst í baráttunnu við atvinnuleysi og það sé nú um eða innan við helmingur þess sem mest varð á árunum 2009 og 2010, er það enn allt of mikið og þjónustan við þá sem í þessari erfiðu stöðu lenda er afar mikilvæg. Útgjöld vegan atvinnuleysis eru greidd með atvinnutryggingargjaldi og það gjald er ekki að lækka, jafnvel þó eigi að stytta nú bótatímann. Það er því í sjálfu sér ekki fjárþröng sem hér er á ferðinni heldur pólitískar ákvarðanir um að skammta Vinnumálstofnun of litlar fjárheimildir, þrengja of mikið að rekstrinum. Þetta tel ég mikla skammsýni og ótímabært með öllu meðan við erum enn að glíma við margvíslegar afleiðingar áfallanna sem hér urðu og ekki síst á sviði vinnumarkaðasmála.”
Steingrímur J. Sigfússon