Ályktað um stöðu lálaunafólks

Stjórn Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar kom saman til fundar fyrir helgina. Þar var eftirfarandi ályktun samþykkt:

„Stjórn Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar lýsir áhyggjum sínum yfir þeirri stöðu sem blasir við launafólki, ekki hvað síst þeim efnaminni, í auknum álögum í heilbrigðisþjónustu.

Allir eiga að geta átt greiðan aðgang að heilbrigðiskerfinu óháð búsetu og efnahag.

Því miður þekkist það að sá efnaminni þarf að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar, við slíkt má ekki búa.

Þá er hár lyfjakostnaður mörgum þungur ljár í þúfu og nauðsynlegt að endurskoða greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu.

Við mótmælum þeim skerðingum sem koma fram í fjárlagafrumvarpi komandi árs, sér í lagi hækkun lægra þreps virðisaukaskatts úr 7% í 12% sem mun ekki bæta hag tekjulægri hópa samfélagsins.“Stjórn Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar samþykkti að senda frá sér ályktun um velferðarmál. Hér er formaðurinn, Jóna Matthíasdóttir á aðalfundi Framsýnar.

Deila á