„Skiljum ekki svona reikningsdæmi“

Vinnumálastofnun hefur boðað að þjónustuskrifstofu stofnunarinnar á Húsavík verði lokað í byrjun desember. Stéttarfélagið Framsýn harmar þessa ákvörðun og kallar eftir því að þingmenn kjördæmisins fjalli um málið.
Í tilkynningu frá Framsýn segir að þjónusta Vinnumálastofnunar sé afar mikilvæg fyrir starfssvæði stéttarfélaganna og nái yfir stórt landsvæði. Á skrifstofunni er einn starfsmaður í 40% starfi. Honum hefur verið sagt upp. Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, segir að þó nokkurra áhrifa muni gæta, verði starfið lagt niður.
„Þau í sjálfu sér verða mikil, því þetta er mikilvægt þjónustustarf sem hefur verið hér varðandi atvinnuleitendur og einnig líka fólk sem á Fæðingarorlofssjóði að halda. Það hefur allt farið í gegnum þennan starfsmann þannig að áhrifin verða mikil og mikil þjónustuskerðing.“
Aðalsteinn setur kostnaðinn við starfið í samhengi við flutning Fiskistofu til Akureyrar.
„Við erum bara að tala um það, að sagt er við okkur að það þurfi að spara, skera niður og fara betur með peninga. Þá skiljum við ekki hvernig það er hægt að finna það út að starf hér á Húsavík sem sinnir 17% af landinu, að það þurfi að skera það niður. Það kostar innan við þrjár milljónir og á sama tíma eru starfsmönnum Fiskistofu boðnar þrjár milljónir, flytji þeir frá höfuðborgarsvæðinu til Akureyrar. Við skiljum ekki svona reikningsdæmi,“ segir Aðalsteinn. (ruv.is)
Deila á