41. þing Alþýðusambands Íslands fór fram í síðustu viku á Hótel Nordica í Reykavík. Um 300 fulltrúar sátu þingið frá aðildarfélögum ASÍ, en rúmlega 100 þúsund félagsmenn eru innan sambandsins. Það er því óhætt að segja að ASÍ sé fjöldahreyfing. Helstu málefni þingsins voru kjaramál, vinnumarkaðsmál, velferðarmál og jafnréttismál. Eftir kynningar á málaflokkunum var þingfulltrúum skipt upp í umræðuhópa með þjóðfundarsniði þar sem þeim gafst tækifæri á að hafa áhrif á stefnu Alþýðusambandsins í þessum veigamiklu málaflokkum. Þessi aðferð, svokallað þjóðfundarsnið, er góð leið til að virkja sem flesta til að hafa áhrif á stefnu sambandsins. Ekki síst fyrir þá sem ekki eru vanir að koma fram og tjá sig. Fjölmargir voru virkir í umræðuhópunum og komu sínum skoðunum vel á framfæri. Reyndar söknuðu margir þess að ekki væri tekin til umræðu ímynd verkalýðshreyfingarinnar, sem skorar ekki hátt um þessar mundir. Kallað var eftir könnun sem ASÍ stóð að og snerti viðhorf fólks til Alþýðusambandsins. Sögusagnir voru um að könnunin hefði komið afar illa út fyrir sambandið. Einhverra hluta vegna var hún ekki kynnt á þinginu, sem er mjög bagalegt þar sem mikilvægt er að bregðast við gagnrýni og vinna með hana áfram til hagsbóta fyrir félagsmenn Alþýðusambandsins í stað þess að sópa henni undir teppi. Einn af þeim þingfulltrúum sem kemur ævinlega vel undirbúinn er Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness. Hans tillögur hafa ekki alltaf verið hátt skrifaðar af valdamiklum mönnum innan Alþýðusambandsins. Nú hins vegar bar svo við að leitast var við að ná samkomulagi í sátt og samlyndi um breytingartillögur hans og annarra þeirra sem lögðu álíka tillögur fram. Þessi vinnubrögð voru til fyrirmyndar á þinginu og sköpuðu ákveðin frið sem verkalýðshreyfingunni veitir ekki af.
Ekki gallalaust þing
Þingið var ekki gallalaust. Tillaga kjörnefndar um nýja miðstjórn vakti töluverða athygli. Reyndar var mjög merkilegt að konur skyldu ekki rísa upp og mótmæla tillögunni hástöfum, það var aðeins gert undir liðnum Önnur mál. Þrátt fyrir jafnréttisáherslur ASÍ og umræðurnar á þinginu virðist sem kjörnefnd hafi lokað augunum fyrir samþykktum sambandsins þegar nefndin tók ákvörðun um að skipa í miðstjórn og varamiðstjórn. Eins og sjá má hér að neðan hallar verulega á konur þegar kemur að tilnefningum í miðstjórn, hlutfallið er 75% karlar, 25% konur. Undarlegt jafnrétti í ljósi þess að konur eru í meirihluta í ASÍ. Fyrir nokkrum árum var gerð athugasemd á þingi ASÍ við magurt vægi kvenna í stjórnunarstöðum innan sambandsins, þar á meðal innan kjörnefndar sem skipar í æðstu stöður í Alþýðusambandinu. Þá stóð undirritaður upp, en hann sat þá í kjörnefnd og lagði til að kona kæmi inn í nefndina í hans stað. Aðrir karlar sáu ekki ástæðu til að standa upp enda annt um sín völd innan sambandsins þrátt fyrir áralanga setu. Klappað var vel og lengi fyrir þessari tillögu sem gekk í gegn. Því miður virðist þessi ákvörðun ekki hafa orðið til þess að kjörnefndin hugsaði sinn gang og lagaði þann mikla kynbundna mun sem var á tilnefningum í stjórnunarstöður hjá sambandinu. Það er ekki nóg að skipa konur sem þingforseta á þinginu, það á að skipa konur í valdastöður í sambandinu til jafns við karla. Það er full ástæða til að gagnrýna þessi vinnubrögð eða meinar ASÍ ekkert með jafnrétti, eru það bara orð á blaði. Reyndar var það svolítið kaldhæðnislegt að þessi tillaga um fulltrúa í miðstjórn skyldi lögð fram á alþjóðlegum degi Sameinuðu þjóðanna en þennan dag voru 39 ár liðin frá fyrsta kvennafrídeginum sem er tileinkaður málefnum kvenna, ekki síst jafnréttismálum.
Eins og sjá má fer lítið fyrir konum í miðstjórn og varamiðstjórn Alþýðusambandsins:
Miðstjórn ASÍ til tveggja ára:
LÍV Guðbrandur Einarsson, VS
LÍV Ingibjörg Ósk Birgisdóttir, VR
LÍV Eiður Stefánsson, FVSA
LÍV Benoný Valur Jakobsson,VR
SGS Sverrir Albertsson, Afl starfsgreinafélag
SGS Björn Snæbjörnsson, Eining-Iðja
SGS Sigurrós Kristinsdóttir, Efling stéttarfélag
SGS Signý Jóhannesdóttir, Stéttarfélag Vesturlands
RSÍ Kristján Snæbjarnarson, FRV
Samiðn Hilmar Harðarson, FIT
SSÍ Sævar Gunnarsson, Sjómannafélag Grindavíkur
Bein aðild Guðmundur Ragnarsson, VM
Varamenn í miðstjórn
LÍV Kristín M. Björnsdóttir, VR
LÍV Kristjana Þorbjörg Jónsdóttir, VR
LÍV Gils Einarsson, VMS
LÍV Bjarni Þór Sigurðsson,VR
LÍV Hjörtur Geirmundsson, Verslunarmannafélag Skagafjarðar
SGS Kolbeinn Gunnarsson, Verkalýðsfélagið Hlíf
SGS Finnbogi Sveinbjörnsson, Verkalýðsfélag Vestfirðinga
SGS Halldóra Sveinsdóttir, Báran – stéttarfélag
SGS Fanney Friðriksdóttir, Efling stéttarfélag
SGS Magnús S. Magnússon, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis
RSÍ Jens Heiðar Ragnarsson, FÍR
Samiðn Finnbjörn A. Hermannsson, Byggiðn
SSÍ Valmundur Valmundarson, Sjómannafélagið Jötun
Bein aðild Georg Páll Skúlason, FBM
Bein aðild Lilja Sæmundsdóttir, FHS
Innan Framsýnar er mikið lagt upp úr jafnrétti. Félagið átti rétt á fjórum fulltrúum á þinginu. Að sjálfsögðu voru kjörnir tveir karlmenn og tvær konur sem fulltrúar félagsins á þingið sem endurspeglar kynjahlutfallið í félaginu.
Skipstjórnin og stýrimennirnir
Varðandi forystuteymið þá gaf Gylfi Arnbjörnsson áfram kost á sér sem forseti sambandsins og fékk kosningu í embættið á þinginu enda fyrirfram nánast ógjörningur að fella tillögu kjörnefndar. Gylfi gat þess í ræðu sinni að það hefði ekki verið auðveld ákvörðun að gefa kost á sér áfram í embættið. Vissulega hefur hann verið mjög umdeildur í embætti sem skipstjóri og margir voru á því að hann ætti að stíga til hliðar svo vitnað sé umræðu í fjölmiðlum og á samskiptamiðlum. Það mun því reyna mjög á Gylfa í vetur. Framundan eru erfiðar viðræður í umhverfi kjarasamninga þar sem allir hópar launþega hafa fengið umtalsvert meiri launahækkanir en aðildarfélög ASÍ fengu út úr síðustu kjarasamningum. Takist ekki að laga þann mikla halla sem er á kjörum verkafólks og þeirra hópa sem hafa fengið umtalsvert meiri hækkanir er fleytan sem ber nafnið ASÍ búin að vera. Skip sem fer á hliðina í ólgusjó verður ekki bjargað. Þannig að baráttan verður upp á líf og dauða fyrir forystu ASÍ. Þeirra bíður að sameina áhöfnina um borð til góðra verka, þétta bátinn og koma honum á réttan kjöl. Það gengur ekki að ákveðnir hópar launafólks stundi frjálsar veiðar er kemur að launahækkunum, það er sjóræningjaveiðar meðan aðrir þurfa að búa við höft og veiðistýringu sem byggir á samfélagslegri ábyrgð og svokölluðum stöðugleika. Gylfi verður ekki einn í brúnni, með honum verða tveir nýir stýrimenn, annar óreyndur, Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR og hinn gamalreyndur Sigurður Bessason formaður Eflingar sem stigið hefur ölduna í nokkra áratugi á sviði verkalýðsmála. Það verður þeirra að hafa áhrif á skipstjórann og tengja hann skipverjunum til góðra verka. Gefum nýrri forystu tækifæri til að ná sambandi við áhöfnina. Það hefur verið sambandsleysi innan áhafnarinnar sem auðvelt er að leysa með gagnkvæmri virðingu og trúverðugleika. Leiðarljósið í stafni ASÍ á að loga glatt til framfara fyrir þá 100 þúsund félagsmenn sem mynda fjölmennustu hreyfingu launamanna á Íslandi. Þeir sem eru í forsvari á hverjum tíma bera mikla ábyrgð, ábyrgð sem þeir eiga að virða og vinna með til góðra verka í þágu félagsmanna.
Takk fyrir gott þing.
Aðalsteinn Á. Baldursson
Formaður Framsýnar, stéttarfélags
Gylfi hélt velli, hans bíður erfitt verkefni, það er að takast á við þá miklu misskiptingu sem er í þjóðfélaginu og sameina launamenn til sóknar í næstu kjaraviðræðum við atvinnurekendur.
Ásmundur Stefánsson fyrrverandi forseti ASÍ hélt erindi á þinginu og kom inn á þá miklu misskiptingu sem er í heiminum.
Þessir menn eru út í kuldanum og koma ekki til greina í stjórnunarstöður á vegum ASÍ enda hafa þeirra skoðanir ekki alltaf farið saman með forystu ASÍ. Þeir njóta hins vegar mikillar virðingar meðal verkafólks í landinu. Þetta eru þeir Vilhjálmur Birgisson og Aðalsteinn Árni Baldursson. Þrátt fyrir annasamt þing gáfu þeir sér tíma til að setjast niður á veitingastað í Reykjavík til að fá sér snarl saman.
Verulega hallar á konur í stjórnunarstöðum hjá ASÍ. Einn af þingfulltrúum sagði í ræðu að besta fólkið væri valið til starfa fyrir sambandið. Sá sem þetta skrifar tekur ekki undir það, það er ekkert samasemmerki þar á milli, það er annað sem ræður. Það er full ástæða til að kalla eftir jafnrétti í verki innan Alþýðusambandsins.
Innan Framsýnar er mikið lagt upp úr virku starfi og félagsmönnum gefist tækifæri á að kynnast starfsemi verkalýðshreyfingarinnar. Í því sambandi má geta þess að 50% af fulltrúum Framsýnar voru að fara á sitt fyrsta ASÍ þing og einn var að fara á sitt annað þing. Aðeins formaður félagsins hefur setið fleiri þing. Jóna og Ósk voru á sínu fyrsta þingi.