Formanni Framsýnar var boðið í heimsókn í Borgarhólsskóla í dag til að skoða mötuneyti skólans. Þar voru fjórir starfsmenn á fullu við að afgreiða 450 nemendur og starfsmenn skólans í hádeginu auk nemenda úr Framhaldsskólanum á Húsavík. Það var töluverð bylting þegar ákveðið var að útbúa mötuneyti í skólanum en skólinn var áður í samstarfi við Fosshótel Húsavík. Mötuneytið hefur gengið mjög vel og er almenn ánægja með það.
Það kemur sér vel fyrir skólann að hafa magnaða starfsmenn í mötuneytinu. Þeir voru á fullu þá tvo tíma sem formaður Framsýnar stoppaði hjá þeim þar sem starfsmennirnir höfðu vart undan að afgreiða hádegisverðinn enda tekur verulega á að afgreiða yfir 400 matargesti á stuttum tíma.
Nemendur Borgarhólsskóla fengu mikið lof frá stúlkunum í mötuneytinu. Þær sögðu þá ganga vel um auk þess sem þeir væru mjög kurteisir.
Stúlkurnar í mötuneytinu voru eins og maraþonhlauparar þegar þær hlupu um eldhúsið og borðsalinn í hádeginu enda mikið að gera.