Kínverjar eru þekktir fyrir sín tímatöl s.s. ár drekans, ár boðberans, ár Grímsstaða og svo framvegis. Varðandi ráðningar hér norðan heiða í lykilstöður á vegum ríkisins er hins vegar hægt að tala um ár Þingeyinga þegar horft er til þess hverjir hafa valist í þessar mikilvægu stöður í fjórðungnum. Á hliðarlínunni sitja forráðamenn Akureyrar með sárt ennið og sleikja sárin þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að Norðurland sé eitt atvinnusvæði. Já tárin streyma niður vota vanganna.
Jón Helgi Björnsson frá Laxamýri Í Reykjahverfi og þar með Norðurþingi, var skipaður forstjóri nýrrar Heilbrigðisstofnunar Norðurlands sem tekur til starfa 1. október. Í Vikudegi kemur fram hjá formanni bæjarráðs Akureyrar að eðlilegt sé að forstjóri stofnunarinnar sé staðsettur á Akureyri. „ Æ,æ, má hann ekki ráða hvar hann býr blessaður maðurinn?“ Spyr Skellibjalla.
Í svari til blaðsins kemur fram að Jón Helgi reikni með að búa áfram á Laxamýri.
Svavar Pálsson sýslumaður Þingeyinga hefur verið skipaður nýr sýslumaður á Norðurlandi eystra, en ný lög um umdæmaskipan sýslumanna taka gildi um næstu áramót. Svavar verður staðsettur á Húsavík. Að sjálfsögðu finnst forsvarsmönnum Akureyrar þetta ómögulegt og hafa mótmælt þessari staðsetningu harðlega með ályktun, að sjálfsögðu eigi sýslumaðurinn fyrir fjórðunginn að vera staðsettur á Akureyri.
„Æ,æ, má ekki vera byggð eða opinber störf fyrir utan Eyjafjörðinn,“ spyr Skellibjalla. „Á að flytja fólk með valdi, líkt og starfsmenn Fiskistofu til Akureyrar, það er gegn þeirra vilja?“
Halla Bergþóra Björnsdóttir frá Laxamýri, systir Jóns Helga, hefur verið skipuð í embætti lögreglustjóra á Norðurlandi eystra með aðsetur á Akureyri. Gleðilegt, enda hæf og reynd kona. Þar sem hún býr á höfuðborgarsvæðinu mun hún sennilega flytja til Akureyrar eða jafnvel heim í Laxamýri. Væntanlega verða hörð viðbrögð frá forsvarsmönnum Akureyrar komi hún til með að flytja annað en til Akureyrar, en hennar ágæti eiginmaður er ættaður frá Húsavík. Að sjálfsögðu eru þau velkomin heim til Húsavíkur sem er jú nafli alheimsins eins heimsbyggðinni er kunnugt.
Freyja Dögg Frímannsdóttir hefur verið ráðin svæðisstjóri RÚVAK. Foreldrar hennar búa á Húsavík, þar sleit hún barnskónum. Að sjálfsögðu á sveitarstjórn Norðurþings að feta í fótspor kollega sinna á Akureyri og krefjast þess að Freyja Dögg flytji aftur heim í víkina fögru við Skjálfanda. Annað á ekki að viðgangast, eða hvað?
Skellibjalla varar við þessari þröngsýni sem fram kemur í málflutningi forsvarsmanna Akureyrar og minnir jafnframt á ummæli fyrrverandi bæjarstjóra Akureyringa, sem sagði mikilvægt að fá Vaðlaheiðargöngin. Tilkoma gangnanna kæmi til með að auðvelda Þingeyingum og Austfirðingum að nálgast þjónustu og verslun á Akureyri. Á móti yrði auðveldara fyrir Akureyringa að fara í orlofshúsin sín í Fnjóskadal um helgar þar sem göngin styttu vegalengdina verulega.
Af ummælum hans að dæma hafa Akureyringar ekkert annað að sækja austur fyrir Vaðalheiði. Það má vel vera að svo sé, en ég hef séð þó nokkra Akureyringa sem ég þekki í berjatínslu í hlíðum Vaðlaheiðar að austanverðu og reyndar víðar. Þá má geta þess að ónefndur bæjarfulltrúi á Akureyri sást kaupa sér ódýra heimabakkaða köku með íslenskum rjóma í Mývatnssveit. Fullyrðing bæjarstjórans er því ekki rétt.
Skellibjalla hefur skýringar á þessu athæfi á öllum fingrum. Eyjafjörðurinn er þröngur enda oft kallaður „skurðurinn.“ Með göngum í gegnum Vaðlaheiði á heilnæmt og loftkennt gæðaloft úr Þingeyjarsýslu eftir að streyma inn í Eyjafjörðinn með tilheyrandi viðhorfsbreytingum og monti af bestu gerð. Við lifum jú á loftinu og það er hvergi betra en í Þingeyjarsýslu þar sem Garðar Svavarsson nam land á sínum tíma.
Eiríkur Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri fetaði í fótspor Garðars og gerði sér ferð til Húsavíkur þar sem hann spilaði fótbolta með Völsungi við góðan orðstír auk þess að ná sér í kvonfang. Er ekki kominn tími til þess að Eiríkur launi heimamönnum kvonfangið góða og stýri Akureyri og hjáleigum „höfuðstaðar„ Norðurlands frá Húsavík? Skellibjalla er þeirra skoðunar.
Kæru lesendur til lands og sjávar. Lifið heil og eigið góða helgi. Með kveðju frá Skellibjöllu sem aldrei sefur og virðir því ekki vökulögin.
Húsavík 19. september 2014
Skellibjalla