Fötum og skóm safnað fyrir börn í afskekktasta þorpi Grænlands

Liðsmenn Skákfélagsins Hróksins hafa sett að af stað söfnun á fötum og skófatnaði fyrir börn og ungmenni í Ittoqqortoormiit, í samráði við skólastjórnendur og aðra vini í þessu litla grænlenska þorpi. Hrókurinn hefur heimsótt þorpið, sem er þúsund kílómetra frá næsta byggða bóli, síðustu átta árin, haldið skákhátíðir og dreift gjöfum frá Íslandi. Tekið verður við fatnaði vegna söfnunarinnar í sal stéttarfélagsins Framsýnar á Húsavík á morgun laugardag milli kl. 13-16.
Ittoqqortoormiit:
Afskekktasta þorp Grænlands heitir Ittoqqortoormiit. Það er á austurströndinni, á 70. breiddargráðu, næstum þúsund kílómetra frá næsta byggða bóli. Íbúar eru á fimmta hundrað, þar af 110 börn undir 16 ára aldri. Íbúar Ittoqqortoormiit eru ekki ríkir í veraldlegum skilningi, en að sami skapi auðugir þegar kemur að ljúfmennsku, gestrisni og hjartagæsku.
Það er gaman að segja frá því að tveir grunnskólar í Reykjavík hafa þegar ákveðið að taka þátt í þessu með okkur. Við leitum eftir nýjum eða óslitnum og hreinum fatnaði.
Allir vinir barna á Grænlandi, sem vilja leggja þessu lið með einum eða öðrum hætti, eru hér með beðnir um að senda skilaboð gegnum Facebook-hóp söfnunarinnar, eða með tölvupósti í hrokurinn@gmail.com.
Munum, að við erum heppnasta þjóð í heimi með nágranna!
Og — eins og Jonathan Motzfeldt sagði — SAMAN ERUM VIÐ STERKARI!Stéttarfélögin skora á fólk að taka þátt í þessari söfnun sem fer fram á Húsavík á morgun.
Deila á