Stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar kom saman til fundar í dag til að taka fyrir og úthluta styrkjum til félagsmanna sem sótt höfðu um greiðslur úr sjóðnum. Teknar voru fyrir umsóknir um almenna styrki, sjúkradagpeninga og fæðingarstyrki. Samtals var úthlutað tæpum 3 milljónum til félagsmanna í styrki vegna ágúst mánaðar. Það sem er sérstaklega ánægjulegt við úthlutunina í dag er að 10 félagsmenn sóttu um fæðingarstyrki sem er óvenju mikið en Framsýn greiðir fullgildum félagsmönnum sem eignast börn fæðingarstyrki, það er samtals kr. 100.000 fyrir hvert barn sem þeir eignast.
Óvenju margir félagsmenn Framsýnar sóttu um fæðingarstyrk hjá félaginu í ágúst. Gleðilegt segir formaður félagsins sem segist vilja fjölga Þingeyingum sem mest. Liður í því sé að styrkja félagsmenn til góðra verka.