Taxi, pitsur og gisting

Það er víða rekin öflug ferðaþjónusta í héraðinu ekki síst í Mývatnssveit. Einn af þessum stöðum er Vogar, ferðaþjónusta sem er fjölskyldufyrirtæki. Þar er gestum boðið upp á gistingu í sumarhúsum, aðgengi að tjaldsvæði og góðum pitsustað. Vanhagi menn um leigubíl geta viðskiptavinir og aðrir fengið skutl með leigubíl sem ferðaþjónustan rekur. Staðarhaldarinn Þuríður Helgadóttir fór yfir starfsmeina með fulltrúum Framsýnar þegar þeir voru á ferð um Mývatnssveitina í vikunni.  Um 25 starfsmenn hafa starfað hjá fyrirtækinu í sumar og er aðsókn ferðamanna í þjónustuna hjá ferðaþjónustunni í Vogum sífellt að aukast. Í samtölum við ferðaþjónustuaðila á svæðinu er ljóst að það truflar verulega starfsemina hvað framhaldsskólarnir byrja snemma á haustin sem gerir það að verkum að illa gengur að manna staðina seinni hluta sumars og fram á haust.
Tumi Torfason matreiðir heimsins bestu pitsur. Það er full ástæða fyrir ferðamenn sem leið eiga um Mývatnssveitina að koma við í Vogum og snæða pitsu.  Að sjálfsögðu er m.a. boðið upp á pitsu með reyktum silungi.  Vogar, ferðaþjónusta opnaði pitsustaðinn árið 2009 sem nýtur mikilla vinsælda meðal ferðamanna sem leið eiga um sveitina. Hægt er fræðast betur um staðinn inn á heimasíðunni www.vogahraun.is
Rosalega eru þetta góðar pitsur, hmmm.
Leigubílinn klár, það eru ekki margir leigubílar í Þingeyjarsýslum, reyndar örfáir. Mývetningar og gestir þeirra búa svo vel að hafa aðgengi að leigubíl og reyndar fleiri þar sem dæmi eru um að beðið hafi verið um leigubíl til að ferja farþega frá Húsavíkurflugvelli til Húsavíkur. Að sjálfsögðu er númerið á bílnum, Mývatn.
Þuríður og fjölskylda standa að ferðaþjónustunni  í Vogum sem hefur verið að eflast ár frá ári. Hér er hún ásamt formanni Framsýnar.
Deila á