Hænan eða eggið

Helgi Laxdal fyrrverandi formaður Vélstjórafélags Íslands skrifaði ágæta grein um kjara- og húnsæðismál í Morgunblaðið á dögunum. Hér má lesa greinina.
Svo langt sem minni mitt rekur hefur umræðan um hvernig hægt sé að tryggja, helst öllum landsmönnum, þak yfir höfuðið verið fyrirferðarmikil, svo ríkjandi að pólitíkin hefur tekið hana upp á sína arma í aðdraganda kosninga. Þar hefur öllu fögru verið lofað að vanda en greinilega lítið af fögru fyrirheitunum komist til framkvæmda. Stofnað hefur verið til hinna ýmsu stofnana í þessu skyni svo sem Húsnæðismálastofnunar ríkisins sem lengst hefur starfað, húsbréfanna sálugu og síðast Íbúðalánasjóðs til þess að veita fjármagni til íbúðakaupa með það bærilegum kjörum að helst allir gætu eignast íbúð. Nú er í farvatninu enn ein tilraunin á þessu sviði sem að vísu lítið hefur heyrst um nema að það er búið að skipa enn eina sérfræðinganefndina ásamt verkefnastjórn til þess  að leiða málið til farsælla lykta í eitt skipti fyrir öll, að mér skilst. Og enn bætt um betur í loforðaskjóðuna því komandi húsnæðiskerfi á líka að taka til leigumarkaðarins og gefa þeim sem þess óska tækifæri til að leiga sér íbúð á kjörum sem flestir geti ráðið við.
Í allri umræðunni um húsnæðisvandann gleymist alltaf að fjalla um meginmálið þ.e. ástæðu allra vandræðanna sem er að það er alltof stór hópur í samfélaginu sem er á svo lágum launum að hann hvorki hefur ráð á að kaupa né leigja íbúð.
Hér er m.a. um að ræða hópa sem taka kaup og kjör samkvæmt lægstu töxtunum á vinnumarkaði sem eru svo lágir að engin leið er fyrir þá sem á þeim starfa að draga fram lífið á þeim tekjum einum. Ég hef verið þeirrar skoðunar og er enn að þau störf sem skapa svo litlar tekjur að fyrir þau er ekki hægt að greiða hærri laun en lágmarkstaxtar kveða á um eigi einfaldlega að afleggja vegna þess að þau geta tæpast haft mikla þýðingu fyrir samfélagið. Hljóta að vera óarðbær en eins og allir vita eiga þessháttar störf ekki rétt á sér í samfélagi sem byggir á sjálfbærni á öllum sviðum. Lítum á taxta verslunarmanna en þar eru byrjunarlaun afgreiðslufólks í verslunum rúm 206 þús. kr. á mán. m.v. fulla vinnu og fara hæst í rúm 230 þús. eftir 5 ára starfstíma. Taxtar félagsmanna Eflingar eru svipaðir, byrja í ríflega 201 þús. kr. mán. og fara hæst í rúm 244 þús. kr. pr. mán.
Samkvæmt mínum upplýsingum munu það m.a. vera starfsmenn á kassa í stórmörkuðunum sem eru á strípuðum töxtum VR með að hámarki 230. þús. kr. á mán. fyrir fulla vinnu. Þá vaknar spurningin, eru þessi láglaunastörf svo léttvæg að þau skipti litlu sem engu máli fyrir viðkomandi fyrirtæki og stofnanir og að þess vegna séu launin jafn lág og raun ber vitni. Er það nú svo? Hvað mundi t.d. nú gerast í stórmörkuðunum ef kassastarfsmenn mundu leggja niður störf. Afleiðingin yrði sú að allt tekjustreymi til verslunarinnar mundi stöðvast en eins og alkunna er, er ekki hægt að reka fyrirtæki, hvaða nafni sem það nefnist, án tekna. Er þá með einhverjum hætti hægt að halda því fram að starf á kassa sé jafn léttvægt og launin gefa til kynna. Að mínu mati alls ekki. Það er nefnilega þannig með eitt samfélag að til þess að það gangi þokkalega vel fyrir sig þarf að sinna öllum þeim störfum sem það byggir á hvaða nafni sem þau nefnast og hvort þau krefjast háskólamenntunar af einhverju tagi eður eigi. Annars fer bara allt á annan endann. Nefna má sorphirðu og ræstingar á spítölum sem dæmi um störf sem þykja nú í daglegu umræðunni ekki sérlega merkileg en nógu merkileg til þess að sé þeim ekki sinnt lamast allt samfélagið. Því er nefnilega stóra spurningin sígild og gamalkunn: hvort kemur á undan eggið eða hænan?
Lágu launin sem stórum hópi fyrirtækja leyfist að greiða fyrir störf sem eru á engan hátt þýðingarminni fyrir viðkomandi fyrirtæki en öll hin sem betur eru borguð valda því að ríkissjóður verður að grípa til margháttaðra ráðstafana til þess að tryggja þessum hópum lágmarksframfærslu. Það er m.a. gert með húsnæðisbótum, barnabótum og vaxtabótum svo nokkuð af því sé nefnt sem kemur fyrst í hugann. Með nokkrum rökum má halda því fram að með þessum bótum sé ríkissjóður að greiða þessi störf niður sem fara oft fram hjá stöndugum fyrirtækjum eins og stórmörkuðunum. Er það hlutverk ríkissjóðs? Að mínu mati alls ekki. Það getur auðvitað hent að hann verði að greiða bætur af þessu tagi en þá ekki vegna þess að viðkomandi sé að sinna svo illa launuðu nauðsynlegu starfi að launin nægi ekki til framfærslu heldur af einhverjum þeim ástæðum öðrum sem almannatryggingakerfið metur bótaskyldar.
Að mínu mati er bara um tvær megin leiðir að ræða í þessu máli. Önnur er sú að setja í lög ákvæði um lágmarkslaun sem yrðu að miðast við að viðkomandi launþegi gæti framfleytt sér án opinberra afskipta. Hin leiðin er að ríkissjóður taki að sér að greiða niður húsnæðiskostnað þeirra sem hafa tekjur undir tilskildum viðmiðum. Fyrst þegar farið hefur fram grundvallarstefnumörkun í þessu máli er tímabært að skipa enn eina gáfumannanefndina til frekari útfærslu hennar.
Deila á