Félagsliðar vilja fá starfsheitið löggilt

Boðað var nýlega til samráðsfundar félagsliða á Norðurlandi til að ræða launamál, stöðu félagsliða og framtíðarsýn. Á fundinn mættu 13 félagsliðar þrátt fyrir skamman fyrirvara og sumarfrí.
Hugur var í félagsliðum að kynna betur námið og störf sem félagsliðar sinna en það vill brenna við að félagsliðanámið sé ekki metið til launa og ekki sé auglýst eftir félagsliðum sérstaklega. Ákveðið var að ráðast í kynningarátak um menntun og störf félagsliða og koma á samráðsvettvangi fyrir þá fjölda félagsliða sem lokið hafa námi og eru starfandi á Norðurlandi.
Á fundinum var rætt um þá baráttu félagsliða sem hefur verið fyrir því að fá starfsheitið löggilt enda er það talinn þáttur í því að lyfta stéttinni bæði í virðingu og launum. Ljóst er að félagsliðar á Norðurlandi munu láta til sín taka í stéttarbaráttunni næsta vetur. Ákveðið var að boða til næsta samráðsfundar seinni partinn í september.
Kristrún Sigtryggsdóttir stjórnarmaður í Framsýn er ein af þeim sem lokið hafa félagsliðanámi.  Innan Framsýnar eru nokkrir félagsmenn sem lokið hafa þessu námi. Félagsliðar á Íslandi  krefjast þess að  starfsheitið Félagsliði verði löggilt.
Deila á