SGS fjallaði um Vísismálið

Á fundi framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambands Íslands á mánudaginn gerði formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson,  framkvæmdastjórn sambandsins grein fyrir framkomu Vísis hf. í garð starfsmanna fyrirtækisins á Húsavík.  

Eins og kunnugt er var starfsstöð fyrirtækisins á Húsavík lokað með mánaðar fyrirvara í vor. Starfsmönnum var sagt að skrá sig atvinnulausa frá 1. maí. Þess má geta að starfsfólk hefur misjafnan atvinnuleysisbótarétt og kom þessi ákvörðun því afar illa við marga starfsmenn auk þess sem töluverður munur er á föstum launum starfsmanna og atvinnuleysisbótum. Þá er fólki gert að ganga á takmarkaðan rétt til atvinnuleysisbóta. Framsýn mótmælti þessum vinnubrögðum fyrirtækisins og krafði það um að halda starfsmönnum inn á launaskrá  út uppsagnarfrests hvers og eins s.br. ákvæði kjarasamninga. 

Í fyrstu hafnaði fyrirtækið því en eftir frekari skoðun og fund með Vinnumálastofnun tók fyrirtækið ákvörðun um að greiða þeim starfsmönnum uppsagnarfrest sem ekki kæmu til starfa hjá fyrirtækinu í Grindavík. Eftir stendur að þeim starfsmönnum sem fara með fyrirtækinu til Grindavíkur var gert að skrá sig atvinnulausa frá og með 1. maí vegna „hráefnisskorts“ hjá fyrirtækinu. Til stendur að vinnslan í Grindavík hefjist 1. september í haust og er starfsmönnum gert að brúa bilið með því að þiggja atvinnuleysisbætur á tímabilinu fyrir utan kjarasamningsbundið orlof.  

Samkvæmt lögum og ákvæðum kauptryggingarsamnings fiskvinnslufólks er fyrirtækjum í fiskvinnslu heimilt að taka starfsmenn tímabundið útaf launaskrá í hráefnisskorti, það er í raunverulegum hráefnisskorti en ekki í tilbúnum hráefnisskorti. Í þeim tilfellum þegar raunverulegur hráefnisskortur er til staðar skrá starfsmenn sig atvinnulausa meðan slíkt ástand varir. Í tilfelli Vísis hf. á þetta ekki við þar sem fyrirtækið hefur yfir kvóta að ráða sem er óveiddur. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu átti Vísir hf. 1.442.275 þorskígildi  þegar fyrirtækið boðaði hráefnisskort og starfsmenn skráðu sig á atvinnuleysisbætur. 

Í reglugerð um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna kauptryggingar fiskvinnslufólks er m.a kveðið á um eftirfarandi: „Ekki er átt við vinnslustöðvun á annars venjubundnum vinnslutíma fyrirtækis sem rekja má eingöngu til uppsetningar á nýjum tækjabúnaði fyrirtækis, breytinga á vinnsluhúsnæði fyrirtækis eða sumarorlofs starfsmanna.“ Miðað við þetta ákvæði er mjög sérstakt ef fyrirtækið kemst upp með að Atvinnuleysistryggingasjóður greiði starfsmönnum laun meðan verið er að setja upp tækjabúnað og gera húsnæðið í Grindavík klárt fyrir vinnslu í haust. 

Framsýn telur mikilvægt að látið verði á það reyna hvort þessi gjörningur Vísis  hf. standist lög en félagið er á því að svo geti ekki verið. Þar sem málið varðar réttarstöðu fiskvinnslufólks á öllu landinu tók Framsýn málið upp á framkvæmdastjórnarfundi Starfsgreinasambandsins. Framkvæmastjórn tók málinu vel og samþykkti að fylgja málinu eftir í nafni Starfsgreinasambands Íslands. Ljóst er að Kauptryggingasamningur fiskvinnslufólks er í uppnámi vegna framgöngu Vísis hf. og því mikilvægt að fá botn í þetta mál fyrir dómstólum ef með þarf,  jafnframt því að Kauptryggingasamningurinn verði tekinn til endurskoðunar í næstu kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Það á ekki að líðast að fiskvinnslufólk búi ekki við sama starfsöryggi og aðrir launþegar þessa lands.  

Starfsgreinasambandið hefur þegar falið lögfræðingum að skoða réttarstöðu fiskvinnslufólks við aðstæður eins og uppi eru eftir að Vísir hf. ákvað að flytja vinnsluna frá Húsavík til Grindavíkur. Líklegt er að málinu verði vísað til Félagsdóms. Vísir hf. hefur einnig boðað lokanir á Þingeyri og á Djúpavogi.

 

Deila á