Sextíu konur frá aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands fóru á Norrænu kvennaráðstefnuna Nordisk Forum sem haldin var í Malmö í Svíþjóð. Framsýn á aðild að Starfsgreinasambandinu. Ráðstefnan hefur ekki verið haldin síðustu 20 ár og var mál kvenna að tími væri til kominn til að Norrænar konur kæmu saman og ræddu verkefnin framundan og hvernig mætti verja það sem hefur áunnist. Alls voru tæplega 400 konur frá Íslandi á ráðstefnunni en hún taldi milli 10 og 20 þúsund þátttakendur. Dögunum í Malmö verður best lýst sem hlaðborði af menningu, fyrirlestrum, umræðum og öðrum viðburðum og létu Starfsgreinasambandskonur sitt ekki eftir liggja.
Niðurstaða ráðstefnunnar var yfirlýsing sem í lok hennar var afhent jafnréttisráðherrum Norðurlandanna og verður kynnt betur síðar en hana má nálgast á skandinavísku hér. Við lokaathöfnina hélt fyrrum varaforseti Suður- Afríku og núverandi framkvæmdastjóri UN-WOMEN, Phumzile Mlambo-Ngcuka, tölu og brýndi konur áfram með þeim orðum að verkefni Norðurlandanna væri að viðurkenna að jafnrétti væri ekki náð og vinna að fullu jafnrétti til að geta verið fyrirmynd fyrir önnur ríki sem hafa ekki náð jafn langt. Ljóst er að á heimsvísu er óttast afturför í jafnréttismálum og því er verkefnið að vinna að jafnrétti hér á Norðurlöndunum enn brýnna en ella. Brýning Phumzile Mlambo-Ngcuka var gott veganesti fyrir íslenskar konur til að taka með heim ásamt öllu öðru sem verður næstu daga og vikur unnið með innan sem utan SGS.
Á myndinni má sjá hluta SGS hópsins taka þátt í kvennahlaupinu sem að sjálfsögðu var hlaupið á ráðstefnusvæðinu síðasta laugardag. Framsýn átti fulltrúa á ráðstefnunni, það er Jónu Matthíasdóttir sem er formaður Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar.