Sjómannadagurinn hefur farið vel fram á Húsavík í frábæru veðri. Í dag voru tveir sjómenn heiðraðir fyrir vel unninn störf, það eru þeir Óskar Gunnar Axelsson og Ómar Sigurvin Vagnsson. Í tilefni að því hélt formaður Framsýnar smá tölu sem lesa má hér:
Ágæta samkoma!
Ég vil byrja á því að óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.
Hefð er fyrir því hér á Húsavík að halda Sjómannadaginn hátíðlegan og heiðra húsvíska sjómenn fyrir vel unnin störf. Sjómannadeild Framsýnar hefur séð um heiðrunina undanfarin ár.
Höfðingjarnir tveir sem við ætlum að heiðra hér í dag eiga margt sameiginlegt. Þeir hafa alla tíð verið öflugir sjómenn, þeir voru lengi saman til sjós á togaranum Kolbeinsey ÞH og dekkbátum eins og Nirði ÞH, Kristbjörgu ÞH, Glað ÞH og Andvara ÞH. Þá búa þeir báðir í raðhúsum á Baughólnum á Húsavík, nú þegar þeir hafa að mestu hætt sjósókn og þá hafa þeir verið giftir sömu konunum í um 50 ár. Til viðbótar má geta þess að þeir eiga sama afmælisdag. Það gerist ekki betra þegar félagar eiga í hlut.
Þetta eru félagarnir, Óskar Gunnar Axelsson og Ómar Sigurvin Vagnsson sem eru vel að því komnir að vera heiðraðir hér í dag.
Óskar Axelsson:
Óskar Axelsson sem er fæddur 23. desember 1941 ólst upp á Hjalteyri við Eyjafjörð. Foreldrar hans eru Axel Sigurbjörnsson og Karen Guðjónsdóttir.
Óskar er komin af mikilli sjómannsfjölskyldu. Það kom því ekki á óvart að Óskar byrjaði mjög ungur að árum að sækja sjóinn með föður sínum sem gerði út á línu og handfæri frá Hjalteyri. Það kom fyrir að móðir hans kom með í róðrana enda urðu allir að leggja sitt að mörkum, bæði ungir og gamlir. Það hjálpuðust allir við að draga björg í bú.
Um 1960 réð Óskar sig á Vilborgu KE á síld og síðar á togarann Víking AK.
Árið 1961 kemur Óskar til Húsavíkur og fer þar til sjós með landvinnu eins og tíðkaðist á þeim tíma.
Haustið 1961 byrjar hann með þeim mikla aflaskipstjóra, Sigga Valla, á Nirði ÞH. Þrír voru í áhöfn, Óskar þá elstur 19 ára og bræðurnir Sigurður Valdimar og Hreiðar Olgeirssynir.
Óskar festi kaup á trillu árið 1962 sem hann gaf nafnið Axel ÞH í höfðuð á föður sínum. Hann gerði trilluna út yfir sumarmánuðina. Á haustin réð hann sig á vertíðarbáta sem gerðir voru út frá Húsavík yfir vetrarmánuðina eins og Kristbjörgu ÞH og Sæborgu ÞH með Kalla í Höfða í brúnni.
Á þessum árum kom Óskar víða við og var meðal annars á bátum eins og Andvara ÞH og Glað ÞH. Þá gerði Óskar út með öðrum um tíma. Í því sambandi má nefna að hann gerði út Árnýju ÞH með Gesti Halldórssyni. Lengst af stunduðu þeir rækjuveiðar í Öxarfirði.
Óskar sölsaði um árið 1982 og réð sig á togara, það er Kolbeinsey ÞH. Þar var hann til ársins 1986 við góðan orðstír.
Eftir það gerði hann út trillu í nokkur ár ásamt því að róa með Óðni Sigurðssyni. Það fór vel á því að Óskar endaði sinn formlega sjómannsferil með þeim fengsæla skipstjóra Sigurði Sigurðssyni sem gerði út frá Húsavík. Óskar hætti til sjós árið 2011. Í gegnum tíðina hefur Óskar verið annað hvort háseti eða vélstjóri á þeim bátum sem hann hefur verið á fyrir utan að vera eigin herra á þeim trillum sem hann hefur gert út um tíðina.
Nú er hann kominn á upphafsstað og dundar við sína trillu á Hjalteyri sem ber nafnið Silungur en Óskar hefur alltaf haldið mikla tryggð við Hjalteyri við Eyjafjörð þaðan sem hann er ættaður.
Óskar hefur verið giftur Ásdísi Jóhannesdóttir í 53 ár og á með henni fjögur börn og 26 afkomendur.
Óskar hafðu bestu þakkir fyrir framlag þitt til samfélagsins í gegnum tíðina. Óskar og Ásdís við athöfnina í dag.
Ómar Vagnsson:
Ómar Vagnsson er ættaður frá Ósi í Arnarfirði en hann fæddist 23. desember 1940. Foreldrar hans eru Vagn Þorleifsson og Sólveig Guðbjartsdóttir.
Líkt og Óskar fór Ómar að sækja sjóinn mjög ungur eða 8 ára gamall með föður sínum og bróðir sem réru á trillu með handfæri og línu frá Álftamýri í Arnarfirði. Ómar þótti liðtækur og sjórinn heillaði hann enda átti hann eftir að eiða mörgum áratugum til sjós.
Ungur að árum flutti Ómar ásamt fjölskyldu að Bakka í Dýrafirði. Þar var hann á sjó á tveimur bátum sem gerðir voru út frá Þingeyri, það er Þorgrími ÍS og Þorbirni ÍS. Ómar var á þessum bátum í þrjú ár á sínum unglingsárum.
Þaðan fór hann á vertíð til Ólafsvíkur í fiskvinnslu. Síðar fer hann til Húsavíkur með viðkomu á Þingeyri en á þessum árum var hann í almennri verkamannavinnu og kom m.a. að því að leggja símalínu frá Húsavík til Grímsstaða á Fjöllum.
Um áramótin 1961 ræður hann sig á Hagbarð ÞH frá Húsavík. Skipstjóri á þeim bát var Þórarinn Vigfússon. Ómar var með Tóta í tvö ár. Nokkru síðar fór hann á Njörð ÞH með þeim bræðrum Hreiðari og Sigga Valla skipstjóra.
Ómar leigði sér trillu og gerði hana út þrjú sumur frá Húsavík. Meðan hann réri beitti Hulda eiginkona hans í landi og sá til þess að vel fiskaðist á línuna hjá Ómari.
Ómar hélt aftur til Ólafsvíkur þar sem hann réð sig á Sveinbjörn Jakobsson SH sem nú ber nafnið Garðar og gerður er út frá Húsavík sem hvalaskoðunarbátur.
Í gegnum tíðina hefur Ómar átt í útgerðum með Óskari Axelssyni og fleirum s.s. í Andvara ÞH og Glað ÞH. Þá gerði hann út Þorkell Björn ÞH í nokkur ár með Halldóri Þorvaldssyni. Þeir seldu bátinn árið 1981.
Upp úr því réð Ómar sig á togarana Júlíus Havsteen ÞH og síðar Kolbeinsey ÞH. Sjómannsferli Ómars lauk árið 1987 þegar hann stofnaði fyrirtæki á Húsavík um sorphirðu, Gámaþjónustuna, sem hann seldi fyrir nokkrum árum þegar hann settist í helgan stein eftir farsælt ævistarf. Þau fjölmörgu ár sem Ómar tengdist sjómennsku gegndi hann störfum sem háseti, kokkur eða beitningamaður.
Ómar hefur verið giftur Huldu Skarphéðinsdóttir í 50 ár og á með henni fimm börn og 15 afkomendur.
Ómar hafðu líkt og Óskar bestu þakkir fyrir framlag þitt til samfélagsins í gegnum tíðina. Ykkar framlag er ómetanlegt.
Heiðursmenn, viljið þið koma hér upp og taka við orðum fyrir ykkar frábæra starf. Ég vil biðja eiginkonurnar, Huldu og Ásdísi, um að koma með þeim upp og taka við smá þakklætisvotti frá okkur í Sjómannadeild Framsýnar.
Ómar og Hulda sáu ástæðu til að brosa í dag enda full ástæða til þess.
Heiðurshjónin, Ómar og Hulda ásamt Ásdísi og Óskari voru heiðruð í dag.