Aðalfundur Þingiðnar fór fram í kvöld. Fundurinn gekk vel og voru fundarmenn ánægðir með starfsemi félagsins. Jónas Kristjánsson var endurkjörinn formaður. Hér má lesa skýrslu stjórnar milli aðalfunda.
1. Fundir
Fundir í stjórnum og nefndum sem fulltrúar Þingiðnar hafa setið frá síðasta aðalfundi sem haldinn var 28. maí 2013 eru eftirfarandi:
Stjórnarfundir 7
Fundir í sameiginlegri Orlofsnefnd stéttarfélaganna 1
Fundir í fulltrúaráði stéttarfélaganna 2
Fundir í 1. maí nefnd 1
Fundir skoðunarmanna reikninga 1
Fundir í stjórn sjúkrasjóðs 12
Félagsfundir 1
Samtals fundir 25
Að venju hefur formaður félagsins verið virkur í starfi og sótt fundi á vegum félagsins s.s á vegum Lsj. Stapa, Alþýðusambands Íslands, Alþýðusambands Norðurlands og Samiðnar.
Þá er samkomulag um að starfsmenn félagsins sjái um úthlutanir úr sjúkrasjóði í umboði stjórnar Þingiðnar.
Góð tenging er milli formanns félagsins og forstöðumanns Skrifstofu stéttarfélaganna sem funda reglulega um starfsemina og rekstur félagsins.
Eftirtaldir hafa setið í stjórn félagsins: Jónas Kristjánsson, Vigfús Leifsson, Sigurður Hreinsson, Þórður Aðalsteinsson og Kristinn Gunnlaugsson.
2. Félagatal
Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2013 voru 93 talsins. Greiðandi einstaklingar voru 84 á árinu samkvæmt ársreikningum félagsins. Karlar voru 82 og konur 2.
3. Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 5.720.271 sem er 7,6% lækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir úr sjúkrasjóði árið 2013 námu kr. 3.000.502, þar af úr sjúkrasjóði kr. 2.364.154. Um er að ræða verulega hækkun milli ára.
Á árinu 2013 fengu samtals 44 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði.
Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 6.019.270 og eigið fé í árslok 2013 nam kr. 208.766.450 og hefur það aukist um 2,97% frá fyrra ári.
4. Orlofsmál
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna hafa átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Framboðið sumarið 2014 verður með svipuðu sniði og undanfarin ár.
Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna stéttarfélaganna ásamt fjölskyldum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félaganna sem er aukning milli ára. Veruleg ásókn er í orlofshús á vegum félaganna en þess ber að geta að þau niðurgreiða verulega orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi.
Þá fengu 11 félagsmenn tjaldsvæðisstyrki samtals að fjárhæð kr. 102.021.
Stéttarfélögin standa fyrir haustferð til Færeyja í haust og eru 24 skráðir í ferðina. Síðastliðið haust stóðu félögin fyrir ferð á Langanesið sem tókst afar vel.
5. Þorrasalir 1-3
Útleiga á íbúð félagsins í Kópavogi hefur gengið vel og hefur nýtingin verið mjög góð. Það sama á við um orlofshús sem félagið hefur haft á leigu fyrir félagsmenn yfir sumarið.
6. Fræðslumál
Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn. Á síðasta ári fengu 6 félagsmenn styrki til náms/námskeiða samtals kr. 196.935.
7. Kjaramál
Kjarasamningur Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins var laus 30 nóvember 2013. Þann 21. desember skrifaði Samiðn undir kjarasamning við SA sem fór í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna Þingiðnar þar sem félagið var aðili að samningnum. Kjarasamningurinn var kolfelldur meðal félagsmanna þar sem um 80% þeirra sem greiddu atkvæði um samninginn felldu hann.
Niðurstaða úr atkvæðagreiðslu Þingiðnar:
Fjöldi á kjörskrá 63 félagsmenn
Fjöldi atkvæða og kjörsókn 26 41%
Já sögðu: 3 11,53%
Nei sögðu: 21 80,77%
Auðir atkvæðaseðlar 1 3,85%
Ógildir atkvæðaseðlar 1 3,85%
Í kjölfar þessarar niðurstöðu fór félagið í viðræður við Samtök atvinnulífsins sem lauk með sáttatillögu Ríkissáttasemjara sem hann lagði fram 21. febrúar. Inn í sáttatillöguna til viðbótar felldum samningi kom eingreiðsla kr. 14.600. Auk þess kom inn góð hækkun á orlofs- og desemberuppbótina eða um kr. 30.000 samtals.
Sáttatillagan var samþykkt meðal félagsmanna Þingiðnar en tæplega 67% félagsmanna sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni samþykktu tillöguna.
Aðeins tvö félög innan Samiðnar felldu kjarasamninginn sem var undirritaður 21. desember 2013. Hin félögin sem samþykktu kröfðust þess að fá það sama og Þingiðn náði fram með sáttatillögunni. Samtök atvinnulífsins urðu við kröfu félaganna og hækkuðu orlofs- og desemberuppbótina.
8. Atvinnumál
Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum hefur almennt verið nokkuð gott miðað við ytri aðstæður og lítið um atvinnuleysi meðal iðnaðarmanna. Miklar vonir eru bundnar við að stórfyrirtækið PCC taki ákvörðun í sumar um að hefja framkvæmdir á Bakka. Gerist það, þurfa félagsmenn Þingiðnar væntanlega ekki að kvarta undan verkefnaskorti á komandi árum.
9. Vinnustaðaskírteini
Rétt er að ítreka það að 15. ágúst 2010 tók gildi samkomulag milli ASÍ og SA um vinnustaðaskírteini. Samkomulagið nær til starfsmanna og fyrirtækja í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð sem og rekstri gististaða og veitingahúsa. Virði fyrirtækin ekki samkomulagið eiga þau á hættu að fá háar sektir.
10. Hátíðarhöldin 1. maí
Að venju stóðu stéttarfélögin fyrir hátíðarhöldum í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2014. Hátíðarhöldin tókust að venju frábærlega en um 600 gestir komu í höllina.
11. Starfsemi félagsins
Þingiðn hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra.
Félagið tók þátt í verkefni með Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og Ríkisskattstjóra í skattaeftirliti á svæðinu sumarið 2013 sem sérstaklega miðaði að byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Vonir eru bundnar við að verkefnið haldi áfram í sumar.
Félagið stóð fyrir jólaboði í desember með öðrum stéttarfélögum sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna. Um 300 manns komu í heimsókn.
Félagið stóð fyrir kvöldverði á Gamla-bauk og leikhúsferð í Breiðumýri í byrjun apríl. Ferðin heppnaðist mjög vel en í hana fóru félagsmenn og makar.
Félagið verslaði húfur handa félagsmönnum sem hafa runnið út til félagsmanna.
Félagið lét gera úttekt á sjúkrasjóði félagsins sem unnin var af pwc. Niðurstaðan er að lausafjárstaða svo og eiginfjárstaða í árslok 2012 auk viðmiða sem fram koma í bréfi ASÍ bendi ekki til annars en að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar á næstu árum.
Félagið tók þátt í söfnun vegna kaupa á orgeli fyrir Húsavíkurkirkju. Samþykkt var að gefa kr. 100.000 í söfnunina.
Félagið niðurgreiddi leikhúsmiða fyrir félagsmenn sem fóru á leiksýningar á vegum Leikfélags Húsavíkur í vetur.
12. Samkomulag við Flugfélagið Erni
Í nóvember 2013 gerðu aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna samkomulag við Flugfélagið Erni um sérstök kjör á flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur sem gilti til 1. maí 2014. Samkomulagið hefur nú verið endurnýjað og framlengt til 1. maí 2015.
Samkomulagið byggir m.a. á því að stéttarfélögin gera magnkaup á flugmiðum og endurselja til félagsmanna. Þannig geta félagsmenn ferðast milli Húsavíkur og Reykjavíkur eða frá Reykjavík til Húsavíkur fyrir aðeins kr. 7.500,- aðra leið, það er í einkaerindum. Miðarnir hækka í kr. 9.200 í haust. Flugmiðarnarnir eru aðeins ætlaðir félagsmönnum og geta þeir einir ferðast á þessum kjörum.
Enn og aftur brjótum við ákveðið blað í starfsemi stéttarfélaga, ekki er vitað til þess að stéttarfélög hafi áður samið við flugfélag um viðlíka kjör fyrir félagsmenn. Reyndar hafa nokkur önnur stéttarfélög fylgd í kjölfarið og gert sambærilega samninga við flugfélagið eins og aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna.
Hugsanlega er þetta ein besta ef ekki besta kjarabótin sem stéttarfélögin hafa samið um fyrir félagsmenn þegar við horfum til þess að félögin hafa verslað 2.340 flugmiða fyrir 17.550.000. Varlega áætlað hafa félagsmenn stéttarfélaganna sparað sér um 20 milljónir við kaup á flugmiðum í gegnum félögin.
13. Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs
Í kjarasamningum árið 2008 komu inn ákvæði um stofnun starfsendurhæfingarsjóðs. Um er að ræða sjálfseignarstofnun sem stjórnað er af aðilum vinnumarkaðarins. Sjóðurinn er fjármagnaður með framlagi launagreiðenda sem er 0,13% af launum og 0,13% framlagi frá lífeyrissjóðum. Virk – starfsendurhæfingarsjóður hóf starfsemi á árinu 2009. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012.
Í samvinnu við Framsýn stéttarfélag hófst starfsemin í Þingeyjarsýslum með tímabundnu tilraunarverkefni á haustdögum 2009. Í febrúar 2010 var síðan gerður samningur milli Framsýnar, Starfsmannafélags Húsavíkur, Þingiðnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar og Virk – starfsendurhæfingarsjóðs um aukna starfsemi á félagssvæðinu.
Í septembermánuði 2010 hóf Ágúst Sigurður Óskarsson fullt starf sem ráðgjafi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs í Þingeyjarsýslum.
Markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu á svæðinu.
Góð reynsla er af starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs á svæðinu s.l. ár. Góður stöðugleiki er í starfseminni og góð samvinna er við heilbrigðis- og félagsþjónustu, úrræðaaðila s.s. Sjúkraþjálfun Húsavíkur og fyrirtæki og stofnanir eru virk í samvinnu um málefni starfsmanna sinna sem glíma við heilsubrest. Mikið er lagt upp úr að þjónustan sé sýnileg og aðgengileg, hvort heldur til almennrar ráðgjafar fyrir félagsmenn eða formlegrar samvinnu við einstaklinga í starfsendurhæfingu.
Flest fyrirtæki og stofnanir hafa verið í jákvæðum samskiptum við Virk um málefni starfsmanna sinna sem eru í samvinnu við Virk. Afar gleðilegt er að nokkur hafa átt frumkvæði að því að bjóða störf og samvinnu vegna einstaklinga með heilsubrest sem eru að leita að tækifærum á vinnumarkaði að nýju.
14. Málefni skrifstofunnar
Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 5 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar og þrif.
Orri Freyr Oddsson lét af störfum á síðasta ári hjá Skrifstofu stéttarfélaganna. Í hans stað var Huld Aðalbjarnadóttir ráðin sem Skrifstofu- og fjármálastjóri.
Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar eru í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla. Ekki eru fyrirsjáanlegar frekari breytingar á rekstri skrifstofunnar.
Góð nýting er á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna.
Ráðist var í breytingar á Skrifstofu stéttarfélaganna um áramótin en gera þurfti við skemmdir sem komu til vegna vatnstjóns sumarið 2012.
Á árinu var fest kaup á verslunar- og þjónustuhúsnæði að Garðarsbraut 26, og nam kaupverðið kr. 13.376.500. Hlutur Þingiðnar þar af er kr. 1.939.593. Fasteignin var keypt sameiginlega með Starfsmannafélagi Húsavíkur og Framsýn og nemur eignarhlutur Þingiðnar í fasteigninni 14,5%. Um er að ræða efri hæð í skrifstofuhúsnæði stéttarfélaganna er snýr að Árgötu og eru fyriráætlanir félaganna að gera endurbætur á eigninni.
15. Lokaorð
Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu. Sérstakar þakkir fær Sigurður Hreinsson fyrir vel unnin störf í þágu félagsins en hann hefur ákveðið að hætta í stjórn félagsins.
Góðar umræður urðu á fundinum í kvöld. Töluverð umræða varð m.a. um kjaramál og síðustu kjarasamninga sem menn eru ekki ánægðir með.
Félagsmönnum í Þingiðn hefur fækkað aðeins milli ára. Vonir eru bundar við að PCC hefji framkvæmdir á Bakka síðar á þessu ári sem leiði til þess að félagsmönnum fjölgi á ný.