Lagabreytingar boðaðar hjá Þingiðn

Þingiðn hefur boðað til aðalfundar þriðjudaginn 27. maí kl. 20:00 í fundarsal félagsins. Tvær tillögur liggja fyrir fundinum, það er ein lagabreyting sjá tillögu I og þá hefur stjórn félagsins ákveðið að leggja til við aðalfund að endurskoðun félagsins verði boðin út, tillaga II. Sjá tillögurnar:

Tillaga I

Löggiltur endurskoðandi félagsins

„Þrátt fyrir ákvæði 4.tl. 21.gr. laga Framsýnar leggur stjórn félagsins til að henni verði falið að bjóða út endurskoðun fyrir félagið vegna starfsársins 2014 og taka því tilboði sem hún metur ásættanlegast í umboði aðalfundar. Kjör þess sem valinn verður vegna ársins 2014 verði staðfest á aðalfundi 2015 samhliða kjöri löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarskrifstofu.“

Greinargerð:
Stjórn félagsins telur nauðsynlegt að bjóða út löggilta endurskoðun fyrir félagið með reglulegum hætti til þess að ná fram bestu fáanlegu löggiltu endurskoðun fyrir besta fáanlega verð. Ekki vannst tími til þess að ljúka útboði fyrir aðalfund 2014 og þess vegna leitar stjórn félagsins afbrigða af þessu tilefni og sérstaks umboðs aðalfundarins.“

 Tillaga II

Ný grein: Tillögur um ráðstöfun úr sjóðum félagsins. Skýring:  Talið er mikilvægt að hafa ákveðið form á tillögum sem félagsmenn, stjórn og trúnaðarmannaráð vilja að teknar séu fyrir á aðalfundum eða félagsfundum.

„Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.“

Iðnaðarmenn bíða og bíða eftir því að eitthvað fari að gerast á Bakka. Vonandi kemur grænt ljós á framkvæmdir í sumar öllum til hagsbóta.

Deila á