Nýr varaformaður í Framsýn

Ósk Helgadóttir hefur tekið við varaformennsku í Framsýn, stéttarfélagi. Kjörnefnd Framsýnar var sammála um að gera tillögu um Ósk sem varaformann. Áður hafði verið gerð skoðanakönnun meðal þeirra félagsmanna sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið. Ósk kom afar vel út úr þeirri könnun og greinilegt er að margir bera mikið traust til hennar. Ósk flutti ávarp á fundinum þar sem hún þakkaði traustið, ávarpið er svohljóðandi:

Góðir félagar.

Þegar Ágúst Óskarsson formaður Kjörnefndar Framsýnar hringdi í mig í vetur og spurði mig hvort ég vildi taka að mér varaformennsku  í Framsýn datt mér fyrst í hug  að hann Gústi  hefði verið að róta eitthvað í lyfjaboxinu sínu og útkoman af því væri alls ekki góð fyrir hann. Og spurði auðvitað á móti hvort væri ekki allt í lagi með hann. Þetta tilboð kom mér algjörlega í opna skjöldu enda fann ég þessu flest til foráttu og fannst flestir mér hæfari til þess starfa. Er yfirleitt er fljót að afgreiða málin en þetta kom svo flatt upp á mig að ég  þurfti aðeins að fá að hugsa mig um. Hann gaf mér góðfúslega leyfi til að sofa aðeins á þessu, ég melti þetta í nokkra daga  og auðvitað sagði kerlingin  …. já… þar kemur til fjandans keppnisskapið sem mér var ríkulega gefið, Gústi gaf upp boltann og ég stóðst ekki áskorunina.

Fyrir ykkur sem ekki þekkja til mín þá er ég  fædd á Borgarfirði (eystri ) árið 1963, rek reyndar ættir mín hér norður, föðurættin af Reykjalínum komin úr Þorgeirsfirði og móðurættin úr Reykjahlíð. Ég settist að  í Fnjóskadalnum fyrir réttum 30 árum, fylgdi manninum heim á æskustöðvarnar og saman eigum við þrjú uppkomin börn.

Ég er búin að vera viðloðandi stéttarfélagið Framsýn í nokkur ár, fyrst sem trúnaðarmaður og hef setið í trúnaðarmannaráði frá 2010. Verkalýðsumræða var svo sem ekki ný fyrir mér því þau mál voru oft krufin við eldhúsborðið á mínu æskuheimili. Ég er alin upp á íslensku alþýðuheimili  og  foreldrar mínir sátu bæði um tíma í stjórn verkalýðsfélagsins á staðnum. Í samfélagi þar sem menn trúðu á Kaupfélagið næst Guði var kjarabarátta litin hornauga og jafnvel flokkuð undir skæruhernað enda þau fáu fyrirtæki sem á staðnum voru í eigu Kaupfélagsins.  Ég viðurkenni  að mér þótti það ekki skemmtilegt á unglingsárunum þegar ég sá föður minn storma inn á kontór í frystihúsinu vitandi það að hann væri þar að gera athugasemdir sem öfluðu honum ekki vinsælda. En uppeldið mótar mann víst að einhverju leyti og þó mér hafi aldrei lærst þetta með Guð og Kaupfélagið þá lærðist mér gagnrýnin hugsun og  það að standa með þeim sem minna mega sín.

Ég fór ung að vinna fyrir mér, í þá daga var maður fermdur og fullorðinn. Frystihúsið var gjarnan fyrsti viðkomustaður okkar stelpnanna en strákarnir fóru flestir á sjóinn. Í litla þorpinu mínu sem líklega hefur verið eins og í mörgum sjávarþorpum á þeim tíma voru bátar settir á flot þegar voraði og settir              ( eins og það var kallað ) að hausti. Leið flestra ungmenna að heiman lá í Eiðaskóla þar sem við gátum lokið okkar grunnskólanámi og þangað fór ég 15 ára gömul. Mátti þá segja að unginn væri floginn úr hreiðrinu, kom þó tíma og tíma heim til vinnu. Leið mín lá svo eins og margra á þeim tíma  á vertíð og ég upplifði það að vera farandverkamaður í nokkur ár. Það var áður en það þótti ófínt af íslendingum að vinna í fiski. Þetta líf þekkir okkar unga kynslóð ekki í dag, kannski sem betur fer, það var óvægið á köflum og oft mikil og erfið vinna,en einhver sjarmi er yfir því að hafa upplifað þessa tíma. Síðasti viðkomustaður með farandverkalestinni  var Grímsey, en þar kynntumst við hjónin og bjuggum þar síðan með hléum fyrstu búskaparárin.

Í um 20 ár hef ég unnið við Stórutjarnaskóla , hef gengið þar í flest störf eftir þörfum hvers tíma, en hef starfað síðustu tvö árin sem skólaliði. Ég hef einnig unnið töluvert við heimaþjónustu í Þingeyjarsveit í gegnum árin og á þar orðið á bæjum marga góða vini.

Eins og ég sagði í upphafi fannst mér ekki sjálfgefið að ég yrði sú sem tæki við kefli varaformanns í einu öflugasta stéttarfélagi landsins. Hópurinn sem mótar stjórn og trúnaðarmannaráð  Framsýnar er afar virkur, traust og gott bakland og ég er stolt af því að tilheyra þeim. Ég tek líka við góðu búi af konu sem ég ber mikla virðingu fyrir og hefur sinnt þessu embætti  árum saman af miklum dugnaði. Hvort ég get fetað í sporin hennar veit ég ekki, en mun þá gera mitt besta til að móta mín eigin. Hvernig  tekst til verður tíminn að leiða í ljós, traust ykkar félagar góðir er mér mikill styrkur og  ég mun reyna að vinna þau störf sem mér verða falin af alúð og trúmennsku.

Takk fyrir

 Ósk Helgadóttir er nýr varaformaður Framsýnar og tók hún við embættinu á aðalfundi félagsins síðasta fimmtudag.

Deila á