Eins og fram hefur komið var Kristbjörg Sigurðardóttir varaformaður Framsýnar heiðruð á hátíðarhöldunum 1. maí. Hér má lesa ávarpið sem formaður Framsýnar fór með við það tækifæri:
Ágætu félagar!
Kristbjörg Sigurðardóttir varaformaður Framsýnar- stéttarfélags, hinn þögli þjarkur, hefur ákveðið að stíga til hliðar sem varaformaður félagsins á næsta aðalfundi þess, sem haldinn verður 15. maí n.k. Kristbjörg, eða Bogga eins og hún er oftast nefnd, er fædd á Arnstapa við Ljósavatn árið 1950. Síðar bjó hún á Lækjarmóti í Kinn, sem Bogga nefnir ávalt Fögrusveit til að árétta fegurð sveitarinnar sem að hennar mati er einstök, svo ekki sé talað um Ljósavatnið. Síðustu áratugi hefur Bogga búið í Auðbrekku 5 á Húsavík.
Kristbjörg á að baki mjög farsælt og glæsilegt starf fyrir félagið, sem trúnaðarmaður, fulltrúi í trúnaðarmannaráði félagsins, stjórnarmaður og varaformaður. Bogga var um tíma í stjórn Alþýðusambands Norðurlands, þar af formaður í tvö ár. Þá var Bogga fyrst kvenna til að gegna varaformennsku í sameinuðu félagi verkamanna og verkakvenna, Verkalýðsfélagi Húsavíkur, nú Framsýn. Þá hefur hún komið að gerð margra kjarasamninga fyrir félagið svo ekki sé talað um innra starf félagsins þar sem hún hefur stjórnað því af mikilli festu í góðu samráði við samferðamenn á hverjum tíma. Eða eins og samstarfskona hennar komst að orði, Bogga í Hvoli er alltaf boðin og búin til að sinna öllum mögulegum störfum í þágu félagsins hvar og hvenær sem er, það væri aldrei neitt vesen þegar til hennar væri leitað. Ég tek heilshugar undir þessi orð. Hér er henni vel lýst.
Við Bogga höfum átt mjög náið samstarf og náð að beisla okkar skoðanir og áherslur saman til góðra verka í þágu verkafólks í Þingeyjarsýslum. Að sjálfsögðu höfum við nöldrað í hvort öðru eins og gömul hjón en við skiljum sem miklir og persónulegir vinir. Það er alveg ljóst að við komum til með að sakna hennar úr okkar starfi, konu sem er metnaðarfull og með sterka réttlætiskennd sem er góð blanda fyrir sanna jafnréttis- og baráttukonu eins og Boggu.
Ástæða er til að þakka Hjálmari Jóni Hjálmarssyni eiginmanni Boggu fyrir skilning og þolinmæði vegna vinnu hennar í þágu félagsmanna Framsýnar og samfélagsins í Þingeyjarsýslum. Það vita þeir sem eru virkir í félagsmálum að án skilnings frá maka/sambýlismanni er þátttaka í félagsmálum ómöguleg. Hjálmar, hafðu bestu þakkir fyrir.
Á þessum tímamótum hefur Framsýn ákveðið að heiðra Kristbjörgu Sigurðardóttir fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og félagsmanna í 30 ár og færa henni gullmerki félagsins. Um er að ræða æðstu viðurkenningu félagsins, það er heiðursfélagi í Framsýn- stéttarfélagi Þingeyinga.
Kristbjörg hefur sjálf sagt að afskipti hennar af verkalýðsmálum hafi byrjað 1984 þegar Erna Þorvaldar, þá trúnaðarmaður starfsmanna á Sjúkrahúsinu á Húsavík og stjórnarmaður í Verkalýðsfélagi Húsavíkur, hafi fengið hana í samninganefnd fyrir hönd starfsmanna í þvottahúsinu vegna samningagerðar fyrir sjúkrahúsin á Norðurlandi. Síðan þá, hefur hún sem betur fer fyrir okkur sem höfum starfað með henni ekki getað slitið sig frá starfinu. Það er alltaf gaman saman með Boggu.
Þess má geta að gullmerkið er smíðað af Þorbergi Halldórssyni gullsmið. Kristbjörg Sigurðardóttir, Bogga, viltu gjöra svo vel og koma hér upp og veita þessari viðurkenningu móttöku.
Aðalsteinn Á. Baldursson
Kristbjörg Sigurðardóttir hefur unnið frábært starf fyrir Framsýn-stéttarfélag. Hún lætur af störfum á aðalfundi félagsins 15. maí n.k.