Jákvæðni á íbúafundi á Raufarhöfn

Íbúasamtök Raufarhafnar stóðu fyrir íbúafundi á Raufarhöfn á þriðjudaginn sem tengist tilraunaverkefni sem staðið hefur yfir á Raufarhöfn.  Árið 2012 hófst tilraunaverkefni á Raufarhöfn að frumkvæði Byggðastofnunar. Verkefnið sem hlaut heitið „Brothættar byggðir“ nær nú að auki til Bíldudals, Breiðdalshrepps og Skaftárhrepps. 

Markmiðið var m.a. að leiða fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra.

Tæplega 50 fundarmenn sóttu fundinn, það er heimamenn og fulltrúar úr verkefnisstjórn byggðaþróunarverkefnis Byggðastofnunar, Háskólans á Akureyri, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Norðurþings. 

Ljóst er að verkefnið hefur skilað góðum árangri að mati heimamanna. Þrátt fyrir það, væri byggðalagið mjög brothætt eins og nokkrir fundarmenn komu inn á í ræðum sínum. Fyrir liggur að fiskvinnsla hefur aukist talsvert milli ára auk þess sem ferðaþjónustan hefur einnig verið að eflast. Ljóst er að heimamenn hafa sérstakar áhyggjur af grunnskólanum á staðnum en fækkað hefur verulega í skólanum á síðustu árum. Þá nefndu menn m.a. mikilvægi þess að tekið verði á flutningskostnaði og að betri nettengingu verði komið á í hinum dreifðu byggðum landsins eins og á Raufarhöfn. Þá voru nefndar nokkrar tillögur að nýjum áhugaverðum atvinnugreinum á staðnum og þá hafa eldri borgar á staðnum stofnað með sér félag sem er til fyrirmyndar.

 

Jákvæðni var á fundinum á Raufarhöfn en tæplega 50 fundargestir sátu fundinn sem Íbúasamtök Raufarhafnar stóðu fyrir.

Deila á