Framsýn krefst fundar með Vísi

Framsýn hefur þegar átt einn fund með forsvarsmönnum Vísis en fundurinn var haldinn af frumkvæði Vísis klukkutíma áður en starfsmönnum var tilkynnt um áform fyrirtækisins að hætta starfsemi á Húsavík 1. maí n.k. Formaður Framsýnar hefur síðustu daga verið í sambandi við forsvarsmenn fyrirtækisins og krafist fundar þar sem farið verði yfir stöðuna og ábyrgð fyrirtækisins gagnvart samfélaginu og starfsmönnum sem búa við mikla óvissu um þessar mundir. Því miður hafa stjórnendur fyrirtækisins ekki gefið tækifæri á fundi fyrr en eftir páska þar sem framkvæmdastjórinn sé staddur erlendis. Forsvarsmenn Framsýnar telja það ólíðandi þar sem mörgum spurningum sé ósvarað af hálfu Vísis er tengist réttarstöðu starfsmanna.

Starfsmenn Vísis á Húsavík eru afar óánægðir og bíða frekari upplýsinga frá fyrirtækinu varðandi sína stöðu og á hverjum degi leita þeir upplýsinga hjá Framsýn varðandi sín mál.

Starfsmönnum var boðið í heimsókn til Grindavíkur í vikunni þar sem þeim gafst tækifæri á að skoða aðstæður.

Deila á