Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar samþykkti að senda frá sér eftirfarandi ályktun í dag þar sem áformum Vísis hf. um að loka fiskvinnslu fyrirtækisins á Húsavík eftir mánuð er mótmælt harðlega. Skorað er á fyrirtækið að endurskoða áformin með það að markmiði að halda starfseminni áfram.
Ályktun
Um lokun á starfsstöð Vísis hf. á Húsavik
„Framsýn, stéttarfélag krefst þess að Vísir hf. endurskoði áform um að loka starfsstöð fyrirtækisins á Húsavík um næstu mánaðamót. Gangi áformin eftir munu þau hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir starfsfólkið, þjónustuaðila og samfélagið allt við Skjálfanda. Fiskvinnsla Vísis er með stærri vinnustöðum á Húsavík. Vinnslan er búin nýjum og fullkomnum vinnslulínum og frábæru starfsfólki sem skilað hefur góðu starfi fyrir fyrirtækið. Í ljósi þessara staðreynda má það ekki gerast að fiskvinnslu verði hætt á vegum fyrirtækisins á Húsavík. Sá skaði verður ekki bættur.“
Töluverð reiði er á Húsavík með ávörðun Vísis hf. að loka starfsstöð fyrirtækisins eftir mánuð. Framsýn ályktaði um málið í dag.