Gríðarlegt áfall í atvinnusögu Húsavíkur

Vísir hf. áformar að flytja alla fiskvinnslu sína til Grindavíkur. Miklar breytingar hafa orðið á mörkuðum erlendis fyrir íslenskan fisk. Afurðaverð hefur lækkað um 20% og síauknar kröfur eru gerðar um ferskan fisk, sveigjaleika í framleiðslunni og skjóta afgreiðslu pantana. Til að mæta þessum breytingum vinnur Vísir hf. nú að nýju skipulagi sem miðar að því að viðhalda óbreyttum fjölda starfsmanna en bæta framlegð fyrirtækisins sem lækkaði um 50% milli áranna 2012 og 2013. Hjá Vísi starfa um 200 manns við fiskvinnslu og 100 á skipum fyrirtækisins. 

Á liðnum árum hefur Vísir hf. byggt upp starfsemi á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík til viðbótar starfsemi fyrirtækisins í Grindavík. Á hverjum þessara staða starfa um 50 manns, bæði fólk með fasta búsetu á svæðunum og verkafólk sem auðveldara á með að færa sig um set. 

Stjórnendur Vísis skoða nú þann möguleika að flytja alla fiskvinnslu fyrirtækisins í áföngum til Grindavíkur en vinna um leið að uppbyggingu nýrra starfa í hinum bæjarfélögunum þremur. Línuveiðibátum fyrirtækisins verður fækkað úr fimm í fjóra. Sjómönnum útgerðarinnar mun fækka lítillega þar sem áhafnir verða sameinaðar. 

Áform stjórnenda Vísis eru að færa allan tækjabúnað fyrirtækisins á einn stað. Þannig verður sveigjanleiki í starfseminni meiri og framleiðni eykst því auðveldra verður að stýra framleiðslunni í verðmætustu afurðaflokka hverju sinni og  bregðast við kröfum erlendra fiskkaupenda. Fyrirtækið telur Grindavík kjörin stað fyrir fiskvinnsluna meðal annars vegna nálægðar við alþjóðaflugvöll og útflutningshöfn. 

Markmiðið með ofangreindum hugmyndum er að styrkja fyrirtækið, gera það samkeppnishæfara og tryggja sem best að starfsfólk Vísis og fjölskyldur þeirra geti treyst á fyrirtækið til langframa sem öruggan og traustan vinnustað. 

Unnið verður að ofangreindum áformum í samráði við fulltrúa starfsfólks og trúnaðarmenn viðkomandi stéttarfélaga. Stjórnendur Vísis vonast til að sem flestir haldi vinnu sinni, annað hvort í breyttri mynd á sama stað eða í sömu vinnu á nýjum stað. Til að svo megi verða munu þeir leggja sig alla fram af heilindum og fullu afli. 

Fyrir hönd Vísis hf.

Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri 

Ítarefni með fréttatilkynningu
Nánari upplýsingar um áherslur stjórnenda Vísis hf. verði áform þeirra um flutning fá allri fiskvinnslu fyrirtækisins að veruleika. 

Til þess að draga úr áhrifum vegna hugsanlegs flutnings allrar fiskvinnslu Vísis hf. til Grindavíkur, bæði á starfsfólk fyrirtækisins og viðkomandi sveitarfélög, mun Vísir kappkosta að byggja upp nýja atvinnustarfsemi þar sem þess er kostur og aðstoða starfsfólk sitt við búferlaflutninga og ferðalög sem þeim fylgir. 

Djúpivogur:
Vísir er að hefja samvinnu við Fiskeldi Austurlands og mun, ef hugmyndir um flutning fiskvinnslunnar til Grindavíkur ganga eftir, sjá um slátrun, vinnslu og pökkun á þeim fiski sem alinn verður upp kvíum Fiskvinnslu Austurlands í Berufirði. Þessi starfsemi kallar á 20 til 25 starfsmenn og munu þeir starfsmenn fyrirtækisins sem eru með fasta búsetu á Djúpavogi hafa forgang að þessum störfum, öðrum verður boðið starf hjá Vísi í Grindavík og aðstoð við flutning og húsnæði. 

Þingeyri:
Hugmyndir Stjórnenda Vísis miðast að því að flytja fiskvinnsluna frá Þingeyri til Grindavíkur eftir eitt ár. Tíminn fram að því verður notaður til að leggja grunn að annarri starfsemi í húsnæði fyrirtækisins á staðnum. 

Húsavík:
Öllu starfsfólki Vísis hf. á Húsavík verður boðin vinna í Grindavík að afloknum flutningum á tækjum og búnaði ásamt aðstoð við flutninga og vistaskipti. Meðan starfsfólkið metur stöðuna bíður Vísir því tímabundin störf við fiskvinnsluna í Grindavík og að koma til móts við það varðandi ferðalög til og frá heimili sínu á Húsavík. 

Áhugi er fyrir því að breyta húsnæðið Vísis á Húsavík í hótel og eða þjónustuhús fyrir ferðamenn. Stjórnendur Vísis munu kappkosta að vinna með þeim sem áhuga hafa á nýrri starfsemi í húsinu með það að markmiði að skapa ný störf í bæjarfélaginu.

Stjórnendur Vísis hf. funduðu með formanni Framsýnar í morgun og gerðu honum grein fyrir áformum  sem fram koma í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu hér að ofan. Aðalsteinn kom á framfæri megnri óánægju félagsins með ákvörðun fyrirtækisins, en um er að ræða gríðarlegt áfall fyrir starfsmenn og samfélagið á Húsavík. Þess má geta að tæplega 60 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu og er vinnustaðurinn einn sá fjölmennasti á svæðinu fyrir utan Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.

Deila á