Svo virðist sem ný stétt náttúruvarða sé að verða til. Náttúruvörðum er ætlað að sjá um innheimtu á gjaldskyldum ferðamannastöðum á Íslandi auk þess að sinna eftirliti og annarri vinnu sem fellur til s.s. stígagerð. Að sögn formanns Framsýnar, Aðalsteins Árna Baldurssonar, hafa borist fyrirspurnir til félagsins varðandi kjör og aðbúnað þessara starfsmanna en dæmi eru um að landeigendur á félagssvæði Framsýnar hafi boðað að þeir ætli að hefja gjaldtöku á ferðamannastöðum í sumar. Aðalsteinn segir mikilvægt að gengið verði frá kjörum þessara starfsmanna fyrir sumarið. Um sé að ræða sértæk störf sem ekki sé beint að finna í ákveðnum kjarasamningi. Þess vegna þurfi að setjast yfir málið og ákvarða laun, vinnufyrirkomulag og aðbúnaðarmál starfsmanna. Sömu lög og reglur eigi að gilda fyrir þessa atvinnustarfsemi og aðra atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu.
Framsýn er opið fyrir því að semja um kaup og kjör náttúruvarða sem er ný starfstétt á Íslandi. Félaginu hafa þegar borist fyrirspurnir varðandi kjör þessara starfsmanna.