Nú er lokið atkvæðagreiðslu um sáttatillögu ríkissáttasemjara er varðar annars vegar kjarasamning Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins vegna starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum og hins vegar kjarasamning Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins fyrir félagsmenn er starfa eftir kjarasamningi Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan félagsins.
Atkvæðagreiðslan fór þannig:
Sáttatillaga við kjarasamning Framsýnar/SGS við Samtök atvinnulífsins:
Fjöldi á kjörskrá voru 833, atkvæði greiddu 110 eða 13,2%. Já sögðu 89 eða 81%, nei sögðu 18 eða 16%. Auðir og ógildir seðlar voru 3 eða 3%. Sáttatillagan skoðast því samþykkt.
Sáttatillaga við kjarasamning Framsýnar/LÍV við Samtök atvinnulífsins:
Fjöldi á kjörskrá voru 112, atkvæði greiddu 6 eða 5,4%. Já sögðu 4 eða 66,6%, nei sögðu 1 eða 16,7%. Auðir og ógildir 1 eða 16,7%. Sáttatillagan skoðast því samþykkt.
Eins og sjá má var sáttatillagan samþykkt. Athygli vekur þátttökuleysið í atkvæðagreiðslunni. Það skýrist fyrst og fremst af því að almenn óánægja er meðal verkafólks með sína stöðu. Fréttir síðustu daga af miklum hækkunum stjórnenda, millistjórnenda og bankastjóra hafa heldur ekki orðið til þess að verkafólk sjái ástæðu til að brosa yfir sáttatillögu ríkissáttasemjara. Fyrir liggur að verkalýðshreyfingin verður að gera betur í næstu kjarasamningum sem eru lausir í upphafi næsta árs ætli hún sér að eiga tilverurétt. Töluverð vakning er meðal verkafólks varðandi sín kjör, kjör sem eru í alltof mörgum tilfellum til skammar.
Það er engin ástæða fyrir verkafólk að gleðjast yfir sinni stöðu eftir síðustu kjarasamninga.