Iðnaðarmenn óánægðir með ákveðna verktaka

Ljóst er að margir iðnaðarmenn í Þingeyjarsýslum eru verulega óánægðir með ákveðna verktaka á svæðinu sem virða ekki Iðnaðarlögin og láta ófaglærða verkamenn vinna verk iðnaðarmanna. Fyrir helgina samþykkti stjórn Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum að senda vertökum á félagssvæðinu bréf þar sem þeir eru hvattir til að virða lögin, annað sé fúsk. Bréfið er svohljóðandi: 

Til fyrirtækja í byggingariðnaði
á félagssvæði Þingiðnar 

Húsavík 24. febrúar 2014 

Ágæti atvinnurekandi
Eins og öllum er kunnugt eru störf iðnaðarmanna lögvernduð  og eiga ekki aðrir að vinna við störf sem falla undir iðnaðarlögin nr. 42/1978, en þeir sem hafa lokið tilskyldu námi. 

Til að vinna störf iðnaðarmanna þarf sveinspróf eða námssamning í viðkomandi iðngrein samkvæmt Iðnaðarlögum. Á undanförnum árum hefur það viðgengist að lögin hafa verið sniðgengin og ófaglærðir starfsmenn unnið við störf sem þeir hafa ekki fagkunnáttu og  tilskilin réttindi.  Slíkt er ekki eingöngu lögbrot heldur einnig alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart þeim sem kaupir þjónustuna í þeirri vissu að um fagmenn sé að ræða. Slík háttsemi bitnar á verkgæðum og byggir undir neikvæða ímynd af störfum iðnaðarmanna. 

Það er því brýnt að fylgjast vel með að ekki séu starfandi réttindalausir menn í störfum iðnaðarmanna. Fyrir því eru a.m.k. þrjár ástæður. 

  • Neytandinn eða verkkaupinn verður að geta treyst því að sú vinna sem hann kaupir sé unnin af þeim sem kunna til verka.  
  • Iðnaðarmenn og nemar  hafa forgang til allra starfa sem falla undir iðnaðarlögin  samkvæmt kjarasamningi.  
  • Það að ófaglærðir starfsmenn vinni störf faglærðra er í mörgum tilfellum félagsleg undirboð sem  skerða  laun og kjarasamningsbundin réttindi. 

Þingiðn hvetur fyrirtæki á félagssvæðinu til að tryggja  að farið sé eftir Iðnaðarlögunum og að ekki séu aðrir að vinna störf sem falla undir lögin en þeir sem hafa tilskilin réttindi. 

Stjórn félagsins hefur ákveðið að fylgja þessu eftir með  átaki sem felst meðal annars í því að fyrirtækin verða heimsótt og kannað hvort starfsmenn viðkomandi fyrirtækis hafi tilskilin réttindi.  

Virðingarfyllst.

Fh. Þingiðnar, félags iðnaðarmanna 

____________________________________
Jónas Kristjánsson formaður

Deila á