Ríkissáttasemjari lagði fram sáttatillögu í hádeginu í kjaradeilu Verkalýðsfélags Þórshafnar og Samtaka atvinnulífsins. Eftir viðræður aðila var skrifað undir tillöguna. Sáttatillagan er viðauki við kjarasamninginn sem var undirritaður 21. desember og felldur var meðal félagsmanna Verkalýðsfélags Þórshafnar. Það sem kemur til viðbótar eða breytist er eftirfarandi:
- Kjarasamningurinn gildir frá 1. febrúar 2014 til 28. febrúar 2015.
- Launabreytingar sem kveðið er á um í kjarasamningi frá 21. desember gilda frá og með 1. febrúar 2014.
- Verði sáttatillagan samþykkt ber atvinnurekendum að greiða launþegum eingreiðslu kr. 14.600 m.v. fullt starf, enda hafi starfsmaður starfað í janúar og var enn í starfi 1. febrúar 2014.
- Desemberuppbótin hækkar verulega eða úr kr. 53.600 í kr. 73.600 m.v.samninginn frá 21. desember 2013.
- Orlofsuppbótin hækkar einnig umtalsvert eða úr 29.500 í kr. 39.500 m.v. samninginn frá 21. desember 2013.
Verkalýðsfélag Þórshafnar mun standa fyrir kynningarfundi og atkvæðagreiðslu um sáttatillögu ríkissáttasemjara á næstu dögum.