Ríkissáttasemjari lagði fram sáttatillögu í dag í kjaradeilu Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins. Eftir viðræður aðila var skrifað undir tillöguna. Sáttatillagan er viðauki við kjarasamninginn sem var undirritaður 21. desember og felldur með stæl meðal félagsmanna Framsýnar. Það sem kemur til viðbótar eða breytist er eftirfarandi:
- Kjarasamningurinn gildir frá 1. febrúar 2014 til 28. febrúar 2015.
- Launabreytingar sem kveðið er á um í kjarasamningi frá 21. desember gilda frá og með 1. febrúar 2014.
- Verði sáttatillagan samþykkt ber atvinnurekendum að greiða launþegum eingreiðslu kr. 14.600 m.v. fullt starf, enda hafi starfsmaður starfað í janúar og var enn í starfi 1. febrúar 2014.
- Desemberuppbótin hækkar verulega eða úr kr. 53.600 í kr. 73.600 m.v.samninginn frá 21. desember 2013.
- Orlofsuppbótin hækkar einnig umtalsvert eða úr 29.500 í kr. 39.500 m.v. samninginn frá 21. desember 2013.
Til viðbótar náði Framsýn inn bókun varðandi vinnufatnað í fiskvinnslu, það er þar sem vinnufatnaður er ekki lagður til. Í bókun aðila kemur fram að unnið verði að því að yfirfara framkvæmdina eins og hún er í dag. Niðurstaða á að liggja fyrir í vor.
Þá var einnig gengið frá samkomulagi varðandi störf við hvalaskoðun á Húsavík sem er fagnaðarefni.
Formaður Framsýnar hefur verið heimilisfastur í karphúsinu síðustu daga þar sem unnið hefur verið að því að ganga frá kjarasamningi sem lauk með sáttatillögu ríkissáttasemjara í dag. Hér er Aðalsteinn að fara yfir kröfur Framsýnar með Ragnari Árnasyni frá Samtökum atvinnulífsins. Mynd: Daníel Rúnarsson ljósmyndari Fréttablaðsins. Þess má geta að stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar hefur verið kölluð saman til fundar næsta mánudag til að fara yfir sáttatillöguna.