Samningar undirritaðir: „Margklofin verkalýðshreyfing“

Þessi frétt er tekin af þeim magnaða vef, akv.is. en fréttamaður síðunnar tók viðtal við Aðalstein formann Framsýnar  þegar hann hafði skrifað undir sáttatillögu ríkissáttasemjara í dag, lesa viðtalið.

Samningar voru undirritaðir í dag hjá Framsýn og í gær hjá Einingu Iðju. Samningarnir eru til eins árs, eða til 28. febrúar 2015. Það sem kemur til viðbótar við þá samninga sem voru felldir í janúar er um 30.000 krónu desemberuppbót og 14.600 kr. eingreiðsla fyrir janúarmánuð.

Þegar akv.is náði tali af Aðalsteini Baldurssyni, formanni Framsýnar sagði hann tilfinningarnar blendnar: „Ég er baráttumaður og auðvitað hefði ég viljað ná lengra. Hins vegar staðfestir þetta orð mín um að meira hafi verið til skiptanna en menn buðu í janúar. Það kom á daginn að ég hafði rétt fyrir mér í þessum efnum. Ég er stoltur yfir því að hafa fært launafólki allavega þessa hækkun sem ekki stóð til áður“.

„Þetta er fyrst og fremst áfangasigur“, segir Aðalsteinn. „Baráttunni er hvergi nærri lokið fyrir bættum launum verkafólks. Auðvitað hefði ég viljað komast lengra í þessari lotu. Nú hefur Eining Iðja samþykkt þessa hækkun einnig. Það var hamast á mér og mínu fólki fyrir að berjast fyrir þvi að samningarnir yrðu felldir. Nú hefur komið í ljós að við sem börðumst fyrir þessu höfðum sitthvað til okkar máls“, bætir Aðalsteinn við.

Margklofin verkalýðshreyfing

Þegar Aðalsteinn er spurður út í ástand verkalýðsbaráttunnar er hann vægast sagt ósáttur við stöðu mála: „Það dylst auðvitað engum sem á horfir að verkalýðshreyfingin er margklofin og á meðan við vinnum ekki að samstilltu átaki verður erfitt fyrir okkur að færa félagsmönnum alvöru kjarabætur. Þetta er eitthvað sem verkalýðsforystan öll verður að skoða gaumgæfilega. Ég er þó sáttur við þessa niðurstöðu sem fæst núna þrátt fyrir ástandið.“

Deila á