Starfsgreinasamband Íslands fundaði með Bændasamtökum Íslands síðasta föstudag um kjaramál. Fulltrúar Framsýnar taka þátt í þessum viðræðum þrátt fyrir að nokkur félög innan sambandsins hafi ákveðið að fara saman í viðræður við Samtök atvinnulífsins um almenna kjarasamninginn án aðkomu Framsýnar og Verkalýðsfélags Akraness.
Helstu hópar sem falla undir kjarasamninginn eru starfsmenn sem starfa við búrekstur og ferðaþjónustu í sveitum s.s. landbúnaðarverkamenn, ráðskonur/matráðar, búfræðingar, fiskeldisfræðingar, tamningamenn og starfsfólk í ferðaþjónustu í smáum stíl.
Að sögn Aðalsteins er sérstök áhersla lögð á hækkun lægstu launa af hálfu Starfsgreinasambandsins og að þeir sem falla undir kjarasamninginn fái í auknum mæli aukna menntun metna til hærri launa. Næsti fundur aðila hefur ekki verið ákveðinn.
Páll Helgason er fiskeldisfræðingur og starfar hjá Rifós í Kelduhverfi. Hann er einnig landbúnaðarverkamaður í Grobbholti á Húsavík. Um þessar mundir er verið að semja um kaup og kjör þeirra sem starfa við fiskeldi og landbúnað á Íslandi.