Verkafólk í Vestmannaeyjum sýndi hugrekki og bar ábyrgð

Ragnar Óskarsson fyrrverandi kennari skrifaði athyglisverða grein í Morgunblaðið og Eyjafréttir um kjaramál. Hér má lesa greinina: 

Eftir að Drífandi stéttarfélag ásamt fjölda annarra stéttarfélaga í landinu felldu kjarasamninga þá sem forysta ASÍ og atvinnurekenda gerðu á dögunum hefur nokkuð verið rætt um ábyrgð og skyldur verkalýðsfélaga í landinu.   Ég hef rætt við ýmsa hér í Eyjum um þessi mál og hafa skoðanir þeirra verið skiptar. Reyndar hafa þeir sem telja að félagsmenn Drífanda hafi sýnt ábyrgðarleysi með því að fella samningana verið mun háværari en raddir hinna. Þessar háværu raddir telja að afstaða verkafólks í Vestmannaeyjum til kjarasamningsins þýði aukna verðbólgu og sé ógn við stöðugleikann í landinu, hvorki meira né minna. Búið sé að eyðileggja möguleikana á uppbyggingu atvinnulífsins og bættum kjörum almennings í landinu. Einn viðmælenda minna bætti því meira að segja við að einhver aðkomustrákur sem ekkert vissi í sinn haus um hagsmuni Vestmannaeyinga réði ferðinni og að hann hefði platað verkafólk í Vestmannaeyjum til þess að fella samningana. Hann og hans menn væru bara lýðskrumarar.

         Það var einkum þessi síðasta athugasemd viðmælanda míns sem fékk mig til að stinga niður penna um þessi mál nú. Athugasemdin lýsir nefnilega svo mikilli mannfyrirlitningu og heimsku að undrum sætir og ég get ekki orða bundist.

         Mig langar af þessu tilefni að benda lesendum á nokkrar staðreyndir sem öllum sem um þessi mál ræða verða að vera ljósar:

  • Samningurinn sem ASÍ forystan lagði til að samþykktur yrði hafði í för með sér áframhaldandi smánarlaun fyri þá sem lægst hafa launin.
  • Samningurinn gerði ráð fyrir því að skattalækkanir þær sem lofað hefur verið næðu ekki til þeirra sem lægst hafa launin, verkafólksins sem Drífandi hefur innan sinna vébanda.
  • Forseti ASÍ lýsti því yfir í sjónvarpsviðtali að laun verkafólks samkvæmt samningnum nægðu ekki til þess að lifa af þeim mannsæmandi lífi.
  • Þessi sami forseti hvatti samt sem áður  verkafólk til þess að samþykkja samningana og þar með að lifa lífi sem hann telur ekki mannsæmandi.

         Með því að fella samning ASÍ forystunnar og atvinnurekenda sýndi ververkafólk í Vestmannaeyjum hins vegar mikið hugrekki og ábyrgð. Það sýndi að fagurmæli, loforð og jafnvel hótanir eru einskis virði þegar lífsbaráttan er hörð  og lífsbaráttan er sannarlega réttlát barátta.

         Verkafólk í Vestmannaeyjum veit það einnig af langri reynslu að kröfur þess um mannsæmandi laun setja hvorki verðbólguna af stað né valda óstöðugleika í landinu. Þar koma allt aðrir við sögu. Þar koma m.a. við sögu þeir sem  sjálfir hafa margföld laun verkafólks, þeir sem geta greitt sér milljarða í arðgreiðslur og gefið verkafólki langt nef á sama tíma.  Þar koma við sögu þeir sem settu landið okkar nær því á hausinn fyrir nokkrum árum og eru nú sem óðast að festa sig í sessi á nýjan leik. 

         Þetta hafði verkafólk í Vestmannaeyjum meðal annars í huga þegar það án hiks og með fullri ábyrgð felldi smánarsamninga ASÍ forystunnar og atvinnurekenda nú á dögunum. 

      Ragnar Óskarsson

Deila á