Gerð tillaga um Ósk sem varaformann

Eins og fram hefur komið hefur heiðurskonan Kristbjörg Sigurðardóttir varaformaður Framsýnar til fjölda ára ákveðið að stiga til hliðar og hleypa nýjum varaformanni að. Einhugur var innan Kjörnefndar Framsýnar að gera tillögu um Ósk Helgadóttir baráttukonu úr Fnjóskadal í embættið en Ósk er kraftmikil kona sem nýtur mikillar virðingar meðal fólks og er þekkt fyrir dugnað og aðkomu sína að félagsmálum. Það verður án efa fengur fyrir Framsýn að fá slíka konu til frekari starfa fyrir félagið en hún hefur setið  í trúnaðarmannaráði  Framsýnar frá árinu 2010. Rétt er að taka fram að tillagan hefur verið auglýst hér á heimasíðunni auk þess sem hún verður einnig auglýst í næstu Skrá sem kemur út eftir helgina.

Ósk Helgadóttir er fædd á Borgarfirði eystri 11. júní 1963. Hleypti heimdraganum ung að árum, tilheyrði stétt farandverkafólks og vann ýmis störf víðsvegar um landið, mest við fiskvinnslu og þá lengst af í Grímsey. Ósk er búsett í Fnjóskadal  og  hefur starfað  við Stórutjarnaskóla  mörg undanfarin ár. Hún er gift Stefáni Tryggvasyni og saman eiga þau þrjú uppkomin börn. Ósk er handverkskona og vinnur mest úr horni og beinum. Þá hefur hún verið virkur þáttakandi í félagi Handverkskvenna milli heiða til margra ára, en félagið á og rekur Goðafossmarkað á Fosshóli, er hún  þar formaður stjórnar. Ósk hefur verið öflug í ýmsu félagsstarfi á svæðinu. Hún er mikill náttúruunnandi og  gönguferðir um fjöll og firnindi hafa verið áhugamál hennar  um áratuga skeið. Ósk skrifaði grein inn á vef Framsýnar sl. haust undir heitinu:  Kæri bankastjóri, greinin sú vakti mikla athygli og hitti beint í hjarta landans en yfir 21.000 manns hafa lesið greinina. Ósk var ein af 6 einstaklingum sem tilnefndir voru sem Þingeyingar ársins á 641.is 2013.

Drottningarnar tvær við Konungshöllina í Svíþjóð. Tillaga Kjörnefndar Framsýnar gengur út á að Ósk Helgadóttir taki við af Kristbjörgu Sigurðardóttur varaformanni Framsýnar til margra og góðra ára.

Deila á