Hvað næst? – felldir kjarasamningar

Það var afskaplega ánægjulegt að 93% félagsmanna Framsýnar skyldu fella kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands þar sem hann er ekki boðlegur verkafólki. Þá þarf ekki að koma á óvart að meirihluti aðildarfélaga ASÍ felldi kjarasamninginn með stæl. Í flestum tilvikum þar sem kjarasamningurinn var samþykktur meðal félagsmanna stéttarfélaga var hann samþykktur með naumum meirihluta. 

Kjarasamningurinn tryggir þeim tekjuhærri mun hærri krónutöluhækkanir og skattalækkanir en þeim tekjulægstu sem ekki fá neinar skattalækkanir.  Sjá meðfylgjandi súlurit um launahækkanir og skattalækkanir: 

Í máli forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands eftir undirskrift kjarasamninganna 21. desember kom fram að tekist hefði að hækka laun lágtekjufólks sérstaklega umfram önnur laun í nýgerðum kjarasamningi. Ekki þarf sérstök vísindi til að sjá að svo er ekki þar sem súluritin segja sína sögu. Þeir sem vöruðu við málflutningi þessara manna voru  kallaðir lýðskrumarar, menn sem bentu á staðreyndirnar sem koma skýrt fram í súluritunum máli sínu til stuðnings. 

Sömu menn  sögðu lýðskrumarana, sem skrifuðu ekki undir kjarasamninginn, vera málsvara aðeins um 5% félagsmanna innan ASÍ. Þeir sem skrifuðu undir kjarasamninginn væru hins vegar fulltrúar fyrir um 95% félagsmanna aðildarfélaga Alþýðusambandsins og stæðu fyrir þeirra skoðunum.  Reyndar hafa þeir orðið að éta þetta meira og minna ofan í sig þar sem yfir 50% félagsmanna Alþýðusambandsins felldu kjarasamninginn sem staðfestir að formennirnir þekktu ekki áherslur sinna eigin félagsmanna. Formenn LÍV og VM mættu íhuga þetta sérstaklega en þeir fóru fremstir í flokki þeirra sem gagnrýndu meinta lýðskrumara fyrir málflutninginn ásamt forseta ASÍ.   

Hvað svo? Það mun væntanlega skýrast á föstudaginn þegar formenn þeirra stéttarfélaga innan Starfsgreinasambands Íslands sem felldu kjarasamninginn koma saman í Reykjavík til að fara yfir stöðuna og næstu skref. Það er von mín að stéttarfélögunum takist að mynda samstöðu um að herja á Samtök atvinnulífsins til að koma betur til móts við kröfur Starfsgreinasambands Íslands varðandi hækkun lægstu launa.

 Leiðin til sátta í skammtímasamningi er eftirfarandi: 

  • Lægstu laun fái sérstaka hækkun umfram þær hækkanir sem samið var um í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands í desember. Sú hækkun er langt undir væntingum verkafólks sem starfar eftir útgefnum kauptöxtum SGS. 
  • Sérmál einstakra hópa innan Starfsgreinasambandsins verði skoðuð betur með það að markmiði að laga ákveðna þætti sem kalla á lagfæringar og endurskoðun s.s. vinnufatnað í fiskvinnslu þar sem hann er ekki lagður til af viðkomandi atvinnurekendum. Um er að ræða mjög háan útgjaldalið fyrir fiskvinnslufólk sem er ólíðandi með öllu. 
  • Gildistími kjarasamningsins verði til 12 mánaða, það er til 1. febrúar 2015. 
  • Ríkistjórnin gefi út yfirlýsingu um að tekjuskattur verði lækkaður hjá þeim tekjulægstu til samræmis við aðgerðir ríkistjórnarinnar í skattkerfisbreytingum sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu sem samþykkt var á Alþingi í desember. 
  • Komi verði á stöðugu verðlagi þar sem ríki og sveitarfélög sýni gott fordæmi með því að halda aftur af verðhækkunum umfram markmið kjarasamninga. Verslunar- og þjónustuaðilar verði einnig kallaðir að borðinu en verulega hefur skort á að þeir axli ábyrgð með sama hætti og verkafólk sem stillt hefur sínum kröfum í hóf á undanförnum árum til að stuðla að stöðugleika. 
  • Komið verði á samráðshópi ríkistjórnarinnar, samtaka sveitarfélaga, samtaka verslunar- og þjónustuaðila auk ASÍ/Starfsgreinasambands Íslands sem hafi það hlutverk að fylgist grant með verðlagsþróun í landinu og bregðast við fari hún umfram forsendur kjarasamninganna.

 Þessar skoðanir eru settar hér fram til umræðu. 

Aðalsteinn Á. Baldursson
Formaður Framsýnar

Fulltrúar Framsýnar fara yfir niðurstöðuna úr atkvæðagreiðslunni á fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs. Aðalsteinn formaður, Ósk sem situr í trúnaðarmannaráði og Jóna Matt stjórnarmaður og formaður Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar.

Kjörnefnd Framsýnar að störfum, tæplega 93% félagsmanna sögðu nei við samningnum.

Deila á