Niðurstöðunni fagnað og ályktað

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar kom saman til fundar fyrir helgina til að ræða niðurstöðuna úr atkvæðagreiðslunni um kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands sem Framsýn á aðild að. Eins og fram hefur komið var kjarasamningurinn kolfelldur meðal félagsmanna Framsýnar og reyndar víða um land.Fundarmenn fögnuðu niðurstöðunni með því að fá sér kaffi og tertu. Í lok fundar var samþykkt ályktun sem er meðfylgjandi þessari frétt.

 Ályktun
Um kjaramál 

„Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar fagnar innilega niðurstöðum úr atkvæðagreiðslu um kjarasamning  Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands sem undirritaður var 21. desember 2013. 

Niðurstaðan er skýr. Bullandi andstaða er við kjarasamninginn sem sést best á því að samningurinn var víða felldur auk þess sem hann var samþykktur meðal annarra stéttarfélaga með mjög naumum meirihluta. 

Í málflutningi Framsýnar hefur komið fram að kjarasamningurinn væri ekki boðlegur verkafólki og þá væru skattkerfisbreytingar ríkistjórnarinnar móðgun við láglaunafólk. Svo ekki sé talað um verðhækkanir síðustu vikurnar hjá ríki, sveitarfélögum, verslunar- og þjónustuaðilum, sem eru á skjön við markmið samningsins. 

Því miður voru nokkrir talsmenn innan Alþýðusambands Íslands sem kölluðu þennan málflutning lýðskrum.  Þeir þurfa nú að bíta í það súra epli að vera með felldan kjarasamning þrátt fyrir að hafa gert allt til þess að félagsmenn þeirra samþykktu þennan gjörning. 

Framsýn mun hér eftir sem hingað til berjast fyrir kjörum þeirra lægst launuðu. Velji menn að kalla það lýðsskrum lýsir það getuleysi viðkomandi aðila til að standa í lappirnar í þágu félagsmanna.“

Deila á