Það hefur verið mjög athyglisvert að fylgjast með málflutningi Alþýðusambandsins í kjölfar undirskriftar kjarasamningsins 1. desember milli aðildarfélaga sambandsins og Samtaka atvinnulífsins. Þeir kvarta og kveina yfir því að þeirra málflutningur raddi ekki í fjölmiðla, aðeins forsesti ASÍ komist að. Þrátt fyrir að 95% stéttarfélaga innan sambandsins hafi skrifað undir kjarasamninginn fái hin 5% of mikla athygli og komist endalaust að í fjölmiðlum. Forystusveit ASÍ hefur verið í mikilli vörn undanfarið enda skynja þeir trúlega þá miklu gremju og reiði í þjóðfélaginu vegna kjarasamningsins og þeirra hækkana á vöru og þjónustu sem skollið hafa á launþega.
Í greinum og viðtölum tala þeir fyrir einni skoðun sem eigi að vera ríkjandi.Þá hafa þeir hamast á fjölmiðlum og varað þá við því að hafa samband við svokallaða fimmmenninga þ.e. formenn þeirra félaga innan Starfsgreinasambandsins sem neituðu að skrifa undir kjarasamninginn.
Eins og fram kemur í þessari frétt hefur þeim orðið tíðrætt um þau hlutföll að 95% aðildarfélaga ASÍ hafi skrifað undir samninginn. Þeir tala hins vegar ekkert um þá staðreynd að umdeildur forseti ASÍ situr í umboði um 200 félagsmanna af um 100.000 félagsmönnum sambandsins sem er um 0,2% af félagsmönnum. Framsýn hefur ásamt öðrum stéttarfélögum innan Alþýðusambandsins lagt til að forsetinn verði kjörinn af öllum félagsmönnum sambandsins til dæmis með rafrænni kosningu. Að sjálfsögðu hefur þeirri tillögu verið hafnað af elítunni, væntanlega er hún of lýðræðisleg. Þá hefur beiðni um að fundargerðir miðstjórnar séu aðgengilegar aðildarfélögum sambandsins einnig verið hafnað. Þó er rétt að geta þess að nú fá stéttarfélögin úrdrátt úr fundargerðunum, það er eftir athugasemdir félaganna, sem kvörtuðu yfir því að hafa ekki aðgengi að fundargerðunum.